Friday, December 14, 2012

Fallegt og persónulegt jólaskraut

Nú þegar jólin nálgast óðum og börnin fara í jólafrí, helgarnar koma ein af annarri og kertaljósin tendruð er um að gera að setjast niður öll saman og föndra. Það þarf ekki að vera dýrt og ekki heldur mikið. Aðaltilgangurinn er að eiga saman notalega fjölskyldustund og ekki skemmir það fyrir að eignast fallegt og persónulegt jólaskraut í leiðinni. Rakst hér á röð myndbanda þar sem farið er yfir nokkrar hugmyndir að jólaskrauti. Virkilega skemmtilegar og fallegar hugmyndir. Endilega skoðið myndböndin hér að neðan.

Thursday, December 13, 2012

Að hanga á stígvélunum

Hef oft átt í vandræðum með stígvélin mín, þau hafa einhvern vegin alltaf verið fyrir, ekki getað staðið upprétt og hálarnir dottið í gegnum götin á skóhillunni. Síðan datt mér þetta í hug...er nokkuð sátt, enda loksins laus við ringulreiðina.

Sunday, November 11, 2012

Meira fyrir minna ... í peningum og kaloríum

Eftir að ég átti seinni strákinn minn ákváðum við hjónakornin að taka matarræðið okkar í gegn. Við viljum bjóða börnum okkar upp á hollan og góðan mat, helst sem má borða eins mikið af og hægt er. Við erum ekki efnamikil og þar sem hollar vörur kosta oft dágóðan pening verður maður að reyna að gera sem best úr sem minnstu. Ég ætla hér að deila með ykkur tveimur aðalréttum og einum eftirrétti (sem virkar líka vel í kaffinu), sem voru aðeins gerðir fyrir einn þannig að auðvelt er að margfalda upp í þann fjölda sem óskað er.

Ég elska eplapæið mitt út í hið endalausa og get ekki fengið nóg af því. Með hina réttina þarf ég einungis að breyta kryddunum aðeins og ég get borðað mig vel sadda með góðri samvisku.

Saturday, November 10, 2012

Megi allt verða hvítt

Tveir hlutir hér á heimilinu hafa verið að ergja mig mikið. Mér hefur fundist tré liturinn ekki passa í þeim aðstæðum sem að hlutirnir voru. Ég tók mig því til og málaði þá hvíta, sem hentar aðstæðunum mun betur.

Síðan fer líka að styttast í jólin og jólasnjóinn ... sem er reyndar kominn óþarflega snemma á sumum landshlutum.

Það þarf ekki mikið til þess að fá stóra breytingu. Bæði herbergin sem hlutirnir voru í og eru í breyttust umtalsvert með einungis þessari litlu og kostnaðarlitlu breytingu.



Sunday, October 7, 2012

Crazy 4 shoes

Ég er ein af þeim sem dýrkar skó. Mér finnst ég aldrei eiga nóg af þeim og ég stend mig stundum að því að horfa bara á þá og dást að þeim. En greyið skórnir mínir eiga engan almennilegan samastað og ég hef reynt að finna lausnir á því hvernig hægt sé að geyma þá á hentugan hátt.

Ég rakst á þessa lausn um daginn á www.epbot.com og finnst hún stórsniðug. Svona getur maður einnig nýtt rýmið fyrir neðan fataslárnar í fataskápnum og nýtt þessi herðatré sem maður fær alltaf með fötunum sínum úr fatahreinsun.

Leiðbeiningarnar má finna HÉR.

Friday, September 28, 2012

"Breytikall" húsmóðurinnar

Eigum við eitthvað að ræða það hversu sniðugt þetta er?! Við fjölskyldan vorum komin með himinhátt fjall af innkaupapokum (áður en það kom aftur bleyjubarn á heimilið) og vorum farin að endurnýta þá en þeir fóru fljótt að rifna svo að við fórum að taka líka poka úr þykku plasti en hann tekur afskaplega mikið pláss í veskinu manns.

Þess vegna finnst mér þetta svo sniðugt. Smá hólf fyrir kortið og símann (það eina sem maður þarf með sér inn í búðina) og þegar maður opnar stóra rennilásinn kemur heill sterklegur poki út!

Þetta kemur af Sew, Mama, Sew! og leiðbeiningarnar má finna HÉR.

Friday, September 21, 2012

Fljótandi bækur ...

http://dreamhomedesigns.net/
bookshelves-designs-ideas 
Ég er ein af þeim sem sé mikil verðmæti í bókum. Mér finnst gaman að eiga þær, geta horft á þær, gluggað í þær af og til og lesið þær aftur og aftur.

En þegar bókunum fjölgar þurfa þær alltaf meira og meira pláss. Svo ekki sé minnst á að maður vill yfirleitt reyna að hafa bókahillurnar sem hentugastar og fallegastar. Það fer síðan eftir því hvar bækurnar eiga að vera hvað hentar best. Til dæmist hentar það best í barnaherbergi að hafa bækurnar sýnilegar og í þeirri hæð sem gerir barninu auðvelt að skoða þær og velja.

Ég er búin að taka saman nokkrar skemmtilegar bókahillur og hugmyndir að bókahillum. Kannski að þú getir nýtt þér einhverjar af þessum hugmyndum ...

Tuesday, September 11, 2012

Fíllinn í næsta húsi

Lítil börn þurfa oft á tíðum mjúkan félaga í rúmið með sér á næturnar og í hvíldinni. Ég hef oft hugsað mér að gera eitthvert tuskudýr fyrir drengina mína og loksins fann ég þennan sæta fíl hér til hliðar sem ég get vel hugsað mér að gera.

Fann þennan sæta fíl hjá The Cheese Thief. Leiðbeiningar að gerð fílsins eru mjög góðar, framsettar i myndum og máli. Leiðbeiningarnar að fílnum má finna HÉR.

Tuesday, September 4, 2012

50 leiðir til að koma skipulagi á heimilið - 3. hluti

Þá er komið að síðasta hlutanum þar sem ég tek fyrir krakkaherbergið, skápana, skrifstofuna og geymsluna.







Sunday, September 2, 2012

50 leiðir til að koma skipulagi á heimilið - 2. hluti

www.homedit.com
Nú er komið að öðrum hluta skipulagsins. Síðast tók ég fyrir eldhúsið og baðherbergið. Núna er komið að stofunni og svefnherberginu. Fullt af sniðugum leiðum til að auka geymslurýmið þitt og gólfplássið.








Tuesday, August 28, 2012

50 leiðir til að koma skipulagi á heimilið - 1. hluti

Það eru margir staðir inni á heimilinu sem flokkast undir vannýtt pláss. Skúffur, skápar, veggir, loft og gólf bjóða upp á margs konar nýtingu til þess að geyma hluti. Hér er farið yfir 50 leiðir til þess að láta rýmið vinna fyrir sig. Ég skipti þessu upp í þrjá hluta og hér í fyrsta hlutanum fer ég yfir skipulag eldhússins og baðherbergisins.

Monday, August 27, 2012

Ikea barnaborð - fyrir og eftir

Við fengum svona Ikea borð gefins fyrir Grím Frey. Það var farið að láta aðeins á sjá, búið að lita á viðinn, hvíta yfirborðið var sum staðar farið. Ég og sonur minn tókum okkur þá til og gáfum því nýtt líf.

Endilega kíkið á ferlið og útkomuna ....




Friday, August 17, 2012

Ýttu undir línurnar!


Enn ein skemmtileg leið til að nýta gömlu bolina sem eru of stórir og passa manni illa. Um að gera að fara þá þessa leið þar sem að þetta snið ýtir undir línurnar. Gerir brjóstunum hátt undir höfði og leggur áherslu á fallegt mitti.

Þetta kemur af síðunni ByWilma og leiðbeiningarnar má finna HÉR

Monday, August 6, 2012

Loftljós úr muffinsformum

Þessi skemmtilegu ljós er hægt að búa til úr pappaljósi og muffinsformum. Þetta kemur af Design Sponge eins og margar aðrar skemmtilegar hugmyndir.

Leiðbeiningarnar að þessu má finna HÉR.

Wednesday, July 25, 2012

Band-trefill

Hversu margir eiga boli inni í skáp sem er löngu hætt að nota og liggja því bara í makindum sínum í hillunni?

Hér er ein af þeim fjölmörgu leiðum til þess að endurnýta þessa boli í eitthvað nýtt. Í þessu tilviki er búið að gera band-trefil úr gömlum bol. Leiðbeiningarnar má finna HÉR og kemur þetta af síðunni Rabbit food for my bunny teeth.

Monday, July 23, 2012

Breyttu til með stenslum

Það er svo margt hægt að gera með stenslum. Það er hægt að lífga upp veggi, myndaramma, kommóður, borð, skápa eða hvað eina sem manni dettur í hug með stenslum.

Hægt er að leita eftir stenslamyndum á netinu undir orðinu stencils til að finna sér myndir til að vinna með. Einnig er hægt að leita eftir sérstökum stenslum, t.d. blóma stenslum undir flower stencils o.s.frv. Þannig að ef manni langar að stensla er hægt að gera það á nokkuð ódýran hátt ... þetta er sérstaklega gaman ef maður er mikið fyrir fínvinnu og dund líkt og ég er.

Ég sjálf fór þessa leið nú um helgina og fann mér mynd til að nota. Endilega kíktu á ferlið ...

Saturday, July 21, 2012

Einföld og falleg armbönd

Rakst á þessi fallegu en einföldu armbönd sem hægt er að búa til á síðunni Honestly...WTF. Eru líka svo sumarleg. Um að gera að gera svona til að klára sumarið með.

Leiðbeiningarnar má finna HÉR.

Monday, July 16, 2012

Lausnin á snúruvandanum fundin!

Hver kannast ekki við það að vera að reyna að finna réttu snúruna fyrir tækið sem þarfnast hleðslu. Snúrurnar eru allar saman í kuðli og greiða þarf úr flækjunni.

Hér er hins vegar búið að finna lausn á vandanum sem mér finnst einstaklega sniðug og flott. Hugmyndin kemur af Better Homes and Gardens .

Friday, July 13, 2012

Æðislegar skálar

Rakst á þessar æðislegu skálar á Design Sponge og vildi endilega deila þeim með ykkur.

Leiðbeiningar um framkvæmd má finna HÉR.


Wednesday, July 11, 2012

Myrkvunargardínur fyrir lítið

Þegar næturnar verða bjartar finnst mörgum nauðsynlegt að geta dimmt herbergið sitt. Við hér á heimilinu erum einmitt þeirrar skoðunar og skunduðum því í rúmfatalagerinn til að fjárfesta í myrkvunargardínum. Þegar þar var komið fannst okkur verðið á þeim  heldur hátt og ákváðum að við myndum redda okkur öðruvísi. Eftir nokkra daga kom hugmyndasnjalli maðurinn minn með hugmynd að lausn. Sú lausn var ódýr og kostaði okkur ekki nema 2000 kr. En ódýrasta myrkvunargardínan sem við fundum sem passaði í gluggann var á 5400 kr.

Monday, July 9, 2012

Hollt túnfiskssalat

Túnfiskssalat hefur ávallt verið í miklu uppáhaldi hjá húsbónda heimilisins en gallinn við það er þetta majones, sem er víst hálfgert kransæðarkítti. Um helgina þurfti svo Bjössi að taka hálendisvakt og ég ákvað að gera túnfiskssalat án majoness og það var frábærlega gott. Ég vildi deila með ykkur uppskriftinni.

Sunday, July 8, 2012

Hafrakökur með döðlum


Eftir fæðinguna er um að gera að koma sér aftur í gott form og koma líkamanum í það ástand sem maður kýs helst.

Hingað til hef ég nær eingöngu breytt matarræðinu, engin sætindi nema á nammidögum, engir sætir gosdrykkir nema kannski á nammidögum og bara hollusta alla aðra daga. Ég hef ekki farið út í það að sleppa hveiti eða neinum matvörum, ég trúi ekki á þess konar matarræðisbreytingu. Ég trúi fremur á að allt sé gott í hófi. Og með þessum breytingum eru tæplega 8 kg farin síðan í upphafi júní (er reyndar með barn á brjósti sem hjálpar óneitanlega til).

En mig langar stundum í eitthvað í kaffitímanum og þvi bakaði ég þessar hafrakökur. Ég átti hafrakökuuppskrift en ég breytti henni nokkuð til þess að koma sem best til móts við mínar þarfir í dag. Vildi deila henni með ykkur því að mér finnst þær mjög góðar.

Friday, July 6, 2012

Auðir veggir úr sögunni!

Þar sem ég glími við þetta vandamál heima hjá mér býst ég fastlega við því að fleiri eigi við sama vandamál að stríða, auðir veggir sem maður veit ekkert hvernig á að gera við og er algjörlega hugmyndasnauður. Ég rakst hér á nokkrar fallegar hugmyndir sem maður getur nýtt sér. Sjá HÉR.




Síðan vil ég endilega minna á það að Design Star er byrjað á Skjá Einum og þar fæðast oft skemmtilegar og fallegar hugmyndir. Þættirnir eru á þriðjudögum kl. 21:10.

Tuesday, June 26, 2012

Skvísu svunta

Nýji fjölskyldumeðlimurinn
Jæja, þá er ég komin aftur. Allir á heimilinu búnir að aðlagast nýjasta fjölskyldumeðliminum sem fæddist 1. júní síðastliðinn og ég sjálf farin að geta gluggað á áhugaverðar síður, skoðað og fengið hugmyndir. Tíminn til að láta hugmyndirnar verða að veruleika er hins vegar ekki alveg farinn að láta sjá sig en það kemur vonandi bráðlega.

Í dag fann ég þessa sætu svuntu sem er gerð úr mörgum lögum svo að hún ýtir aðeins undir kvenleikann í manni ;)

Ég rakst á hana á síðunni Sew4home en þar get ég stundum gleymt mér tímunum saman (þ.e. þegar ég hef marga tíma til umráða) : P

Viljir þú skella í eitt svona svuntustykki, eða nýta hugmyndina og gera annars konar útgáfu má finna leiðbeiningarnar HÉR.

Thursday, May 24, 2012

Auglýstu fjölskylduna

Ég hef alltaf verið hrifin af því þegar fólk setur margar myndir saman í ramma og lýsir þannig eitthverri sögu úr fjölskyldunni.

Okkur langaði að gera eitthvað svipað á sínum tíma en vildum ekki vera með venjulegan myndaramma og troða í hann myndum eða líma myndirnar handahófskennt á vegginn því þannig gæti komið fita og ryk á myndirnar sem myndi skemma þær.

Einn daginn kom Bjössi hins vegar heim með auglýsingastand og spurði hvort að hann myndi ekki ganga upp. Ég byrjaði að raða í hann og hér til hliðar má sjá afraksturinn. Reyndar eru myndirnar frá sumri og hausti 2009 þannig að það fer að koma tími á endurnýjun.

Okkur finnst alltaf jafn gaman þegar fólk staldrar við standinn og skoðar myndirnar. Sonurinn getur einnig eytt dágóðum tíma fyrir framan standinn og skoðað myndirnar, spáð og spekúlerað.

Tuesday, May 22, 2012

Pláss fyrir póstinn

Hingað til hefur pósturinn yfirleitt lent á borðinu, safnast saman þar og þegar komin er góð og myndarleg hrúga finn ég mig knúna til að taka upp möppuna og ganga frá.

Auðvitað væri það lang gáfulegast að ganga strax frá póstinum en stunudum eru bara þarfari hlutir sem bíða, eða svo segi ég sjálfri mér.

Hér er hins vegar búið að búa til ótrúlega snyrtilegt og fallegt hólf fyrir póst, bæði sem þarf að fara í póst og er að koma inn úr póstkassanum.

Spurning um að skella í einn svona þegar tími vinnst til. Ef þig langar til að gera póstvasana þá má finna leiðbeiningarnar HÉR.

Saturday, May 19, 2012

Stefnumótakassinn


Rakst á þessa skemmtilegu hugmynd á Silly Pearl. Er ekki um að gera að gera sér einn svona kassa og þegar maður er algjörlega hugmyndasnauður um hvað skuli gera að opna þá kassann og taka upp einn bitann. 

Ég hef alltaf gaman af eitthverju óvæntu, finnst gaman að láta koma mér á óvart og mér finnst eins og þetta sé eins nálægt því og hægt er að komast að koma sér sjálfum á óvart ... 

Hægt er að útbúa þennan kassa sjálfur og leiðbeiningarnar er að finna á síðu Silly Pearl. Þær má finna HÉR.

Sunday, May 13, 2012

Sagan af bolnum sem varð að poka

Alltaf má finna leiðir til að nýta gamla bolinn. Hér hefur bol verið breytt í bakpoka sem einnig má nýta sem hliðartösku.

Þetta er mjög einföld breyting og auðvelt fyrir hvern sem er að gera þetta. Sérstaklega þar sem leiðbeiningarnar eru settar upp í myndformi til að auðvelda skilning lesandanna á framkvæmd verksins. Er þetta ekki bara ekta poki fyrir sumarið til að geyma sólarvörnina og sundfötin???

Þetta má finna hjá Tali á Growing Up Creative, leiðbeiningarnar má finna HÉR.

Saturday, May 12, 2012

Gamla góða puttaprjónið ?

Þegar ég var yngri þá puttaprjónaði ég þessi ósköp af endalausum mjóu lengjum sem maður þóttist geta nýt sem trefla, hálf nöturlegir treflar svo ég segi sjálf frá. Um daginn rakst ég á hugmynd sem var inni á Design Sponge þar sem að puttaprjón var nýtt í að gera röndótta púða. Ég ákvað þá að prófa að puttaprjóna aftur og nýta lengjurnar í það að gera eitthvað á púða.

Litlir kassar ...






Mér hefur alltaf fundist mandarínukassarnir svo sætir og oft viljað gera eitthvað úr þeim.





Hér má sjá einn kassann (Robin mandarínukassi) sem ég tók í yfirhalningu. Ég reif alla miða af og lakkaði hann hvítan, þurfti tvær umferðir til. Síðan lagði ég botninn ofan á gjafapappír (með innri hliðina upp) og dró útlínurnar á kassanum á gjafapappírinn. Klippti síðan eftir teikningunni og setti svo pappírinn í botninn á kassanum.


Lítið mál er síðan að skipta um útlit og finna sér nýjan gjafapappír til að setja í. Ég hef einnig stundum tekið gjafapappírinn úr og notað kassann sem brauðkassa undir snittubrauð í veislum.

Að skapa sitt eigið


Ég hef lengi gengið með hugmyndina að þessari tösku og byrjaði á henni fyrir nokkrum árum. Síðan tók námið við, barneignir og vinna. En loksins hefur mér gefist nægur tími til að setjast við saumavélina og sauma hitt og þetta, líkt og sést best hér á blogginu.





Í gær tók ég svo upp efnið og bútana sem þegar höfðu verið klipptir og byrjaði að sauma. Í kvöld gat ég síðan lokið verkinu. Það er alltaf jafn gaman að geta komið frá sér nokkurra ára gamalli hugmynd og ennþá betra þegar maður er ánægður með útkomuna.

Hönnun og framkvæmd er að öllu mín.

Að nýta gömul föt í ný

Mér finnst alltaf jafn gaman að finna góðar og flottar hugmyndir að því hvernig hægt er að nýta gömlu fötin til þess að skapa eitthvað nýtt.

Hér notar Leana gamlan hlírabol og keypt efni til að skapa þennan sæta kjól. Ef til vill gæti maður fundið eitthvað í fataskápnum sínum til að nýta í pilsið, t.d. gamla skyrtu af karlinum eða eitthvað álíka.

Þetta pils og leiðbeiningarnar að því má finna HÉR.

Ný hlutverk gamla svefnsófans



Þegar ég og Bjössi (maðurinn minn) byrjuðum að búa keyptum við okkur hornsófa í Rúmfatalagernum sem var einnig svefnsófi. Hann var líkt og sniðinn inn í íbúðina okkar á þeim tíma en eftir nokkra flutninga var farið að sjást nokkuð á honum og hann farinn að liðast í sundur. Smám saman hurfu hlutar af honum, fyrst önnur tungan og síðan hornið þannig að eftir stóð einungis svefnsófahlutinn af honum. og að lokum var hann allur tættur í sundur til að gegna öðrum hlutverkum. Þrátt fyrir mikla leit gat ég ekki fundið almennilega mynd af honum en Google bjargar öllu og þar fann ég mynd af honum eins og hann leit upphaflega út.

Nýtt útlit fyrir lítið


Þegar við fluttum inn í húsið okkar var ýmislegt sem okkur langaði að breyta og bæta. Okkur langar reyndar enn að breyta og bæta ýmsu en á meðan peningarnir eru ekki til varð að fara ódýru leiðirnar að lausninni. Ég deila með ykkur þessum helstu breytingum okkar sem við gerðum þegar við fluttum inn. Ljósin og eldavélin eru hins vegar ný af nálinni.
Hér fyrir ofan má sjá ganginn okkar, fyrir og eftir. Mér fannst gangurinn ógurlega langur og leiðinlegur og langaði því að brjóta hann upp með einhverjum hætti.

Endurlífgun á peysu


Hver kannast ekki við það að eiga peysu inni í skáp sem hefur einungis verið notuð einu sinni eða svo sjaldan að ekki er hægt að rifja upp hvenær hún var notuð síðast? Ég er búin að eiga nokkrar þannig og þegar ég horfði á eina þeirra datt mér í hug að færa hana aftur til lífs. Ég hef aldrei fílað hana sem peysu en ég gæti vel notað hana sem bundnar ermar. Ég set hér með sýnikennslu á því hvernig það er hægt. Eins og sjá má hér fyrir neðan er breytingin þó nokkur.


Hvernig má breyta ónothæfri peysu í eitthvað nothæft ....

Sumarkjóllinn í ár?


Nú er maður loksins farinn að finna fyrir sumrinu og tími til að leggja svörtu og þykku fötin til hliðar og taka fram þessar litríku flíkur sem leynast inni í skápunum. Léttu kjólarnir, sandalarnir og sólgleraugun horfa fram á bjartari tíma.

Ef kjólarnir eru hins vegar eitthvað fáir og maður myndi gjarnan vilja bæta aðeins í safnið, finnst kjólarnir í búðunum of dýrir ... er þá ekki um að gera að sauma sér einn sjálf/ur?

Margt smátt gerir eitt stórt



Hér til hliðar má sjá mynd af hjónaherberginu okkar ... sem ég var mjög leið á. Mér fannst það vera litlaust og algjörlega persónuleikalaust. Við náðum því í málningarprufur og hugsuðum okkur vel um hvaða lit við myndum vilja þarna inn.Fyrir valinu varð fallegur brúnn litur frá Flugger.


 Á sama tímabili fórum við í IKEA þar sem útsala var í gangi. Þar fundum við framhliðar á eldhússkápa á úsölu, hver hurð kostaði tæplega 1000 kr, alls ekki dýrt. Við erum lengi búin að vera að leita að höfuðgafli á rúmið okkar og aldrei orðið sammála ... þangað til þarna í Ikea. Þessar skápaframhliðar myndu sóma sér vel sem höfuðgaflinn á rúminu okkar.


Hobo bag


Hvað er það sem maður á aldrei nóg af ..... hmmm ... töskur og skór? Ég er alla vega á því að svo sé þó svo að maðurinn minn sé ekki ávallt sammála. En þetta tvennt er eitthvað sem verður aldrei of lítið á mann eða of stórt.

Nauðsynlegt er að eiga "nokkrar" gerðir af hvoru fyrir sig því stundum vill maður endilega láta þessa fylgihluti passa  við það sem maður klæðist.

Ég fann þessa tösku á vafri og féll algjörlega fyrir henni, ég væri til í svona og læt örugglega verða af því að gera mér eitt stykki þegar önnur verkefni sem bíða afgreiðslu eru búin :)

Þessi tegund tösku kallast Hobo bag og í þessu tilviki eru leiðbeiningar að finna á JCaroline Creative. Smelltu HÉR til að fara beint í leiðbeiningarnar/sýnikennsluna.

Stillanlegt mitti


Ég lendi mjög oft í því að buxur séu of víðar á strákinn minn. Oft hugsað um að gott væri að setja stillanlega teygju í mittið eins og er á sumum buxum (sem ég er mjög hrifin af). Ég get vel trúað því að fleiri mömmur og jafnvel feður standi í sömu sporum.

Hún Heidi á Homemade by Heidi er með frábæra sýnikennslu á því hvernig er hægt að setja stillanlega teygju í mittið. Smelltu hér til að fara yfir á síðuna hennar og fá leiðbeiningarnar.

Kjúklingurinn hittir Sesar


Í gær gerði ég frábært salat fyrir mig og manninn minn. Sonur okkar var hjá ömmu sinni og afa svo að við ákváðum að nýta tækifærið og gera okkur salat, þar sem það slær ekkert sérstaklega í gegn hjá drengnum. Ég átti smá afgang af kjúkling frá því á laugardagskvöldið sem ég ákvað að nota. Þetta var svo gott allt saman. Ég gleymdi reyndar alveg að taka mynd sem er synd af því þetta leit svo vel út! Ég gerði mína eigin dressingu þar sem við erum hvorugt mikið fyrir þær dressingar sem finnast úti í matvörubúðunum. Okkur finnst þær oft á tíðum þungar og eru stundum svo óhollar að það hálfa væri hellingur. Þannig að af hverju ekki að taka sig til og gera eitthvað sem manni finnst virkilega góð dressing???
Hér er svo uppskriftin af salatinu (er fyrir ca. 2-3)