Sunday, November 17, 2013

Halda skal hvíldardaginn heilagann

Rauk upp á heilsugæslu með yngri soninn um miðnætti vegna öndunarerfiðleika og þar sem sá eldri er með hósta og kvef og ég í sama pakka er innivera málið í dag. Fyrir liggur kósý tími yfir góðri teiknimynd og föndra jólagjafir hjá þeim eldri. Um að gera að reyna sitt allra besta til að gera gott úr ástandinu því úti er nýfallinn sléttur snjór og trén bæra ekki á sér eða eins og Grímurinn minn segir "Þau dansa ekki í dag mamma". Semsagt hið fullkomna veður til að leika sér úti í snjónum.


Vildi óska þess að þetta væri í ofninum akkúrat núna. Lambalæri fyllt með basilíku og hvítlauk (gerði skurði og stakk ofan í). Við fengum okkur það síðustu helgi og buðum bróður mínum í mat. Þetta var tryllingslega gott, borið fram með smjörsteiktum kartöflum og rjómalagaðri sveppasósu. Ætli maður verði ekki aðeins að draga úr kröfunum þegar veikindi ber að garði ...


Knús og kram, Hilja


Thursday, November 7, 2013

Rifsberjaísinn ... !

Langaði til að deila með ykkur þessari brjálæðislegu góðu uppskrift að rifsberjaís. Hann er nauðsynlegt "meðlæti" með frönsku súkkulaðikökunni á þessu heimili enda er það fullkomin tvenna!

Here below is the recipe for redcurrant icecream in English.Sunday, November 3, 2013

Úr bók má mat gera ...

Þessi bók er í uppáhaldi hjá mér. Ég fékk hana í jólagjöf frá strákunum mínum og er mikið búin að skoða hana, prófa uppskriftir og útfæra á minn hátt því eins og þeir sem eru nákomnir mér vita að þá á ég mjög erfitt með að fara eftir uppskrift. Sem er kannski bara góðs viti því að maður á að laga uppskriftirnar að sínum þörfum, bragðlaukum og vilja. Engin uppskrift er heilög. Það er líka skemmtilegt að hafa einn dag í viku þar sem er prófað eitthvað algjörlega nýtt. Við höfum haft tilraunalaugardaga þegar færi hefur gefist og okkur finnst alveg afskaplega skemmtilegt að upplifa nýja matargerð. Stundum liggjum við á meltunni á eftir, í önnur skipti er hafður eftirréttur til að fylla upp í magann.

Ég setti hérna inn um daginn uppskrift af beikonvöfðum kjúklingi. Ég átti smá afgang af kjúklingakótelettenum sem ég gerði fyrir strákana (á meðan við hjónin fengum unaðskjúklinginn ... ) og helling af hrísgrjónum. Ég var síðan að glugga í þessa bók og rakst á rísottó á meðan ég var að hugleiða hvað ég ætti að hafa í kvöldmatinn. Ég ákvað því að nota afganginn síðan kvöldið áður og bjó til rísottó úr hrísgrjónunum, kjúklingnum, afgangsbeikoninu, afgangs gráðuostinum og bætti við rauðlauki. Mér finnst svo gaman að gera góðan afgangsrétt og þessi réttur var ekkert mikið síðri en upphaflegi rétturinn. Með réttinum fékk síðan að fylgja hvítlaukssósan frá kvöldinu áður og salat.

Bon appetit :)

Knús og kram, Hilja


Saturday, November 2, 2013

Jólastjarna úr pappírsgoggum


Úr 6 pappírsgoggum er hægt að búa til falleg jólastjörnu. Vantaði þig ekki örugglega eitthvað að gera fyrir jólin? Hægt er að nota alls konar litaðan pappír eða jafnvel mála létt með pensli yfir, ég hef stundum málað með gylltri eða silfurlitaðri málningu en þá bara strokið létt yfir með penslinum. 

Endilega kíktu neðar til að sjá hvernig svona jólastjarna er gerð .... ekki verra ef þú skilur eftir þig spor í ummælum ... 

Thursday, October 31, 2013

Gátan

Hvað heldur ÞÚ að verði úr þessu ??? Lausnin kemur um helgina svo að fylgist með :)


Monday, October 28, 2013

Beikonvafður kjúklingur fylltur með gráðaosti og döðlum!

Ég fór í boð á laugardagskvöldið þar sem frábær matgæðingur að nafni Begga bar fram hvern dýrindis réttinn á fætur öðrum. Þar á meðal voru beikonvafðar döðlur sem fylltar voru með gráðaosti.

Út frá því fékk ég hugmyndina að þessum rétt, beikonvafðar kjúklingarúllur fylltar með döðlu-og gráðaostamauki. Ég bar þetta fram með heimatilbúinni hvítlaukssósu, hrísgrjónum og fersku salati. Svo ég segi sjálf frá þá var þetta GUÐDÓMLEGA GOTT. Ef þig langar að prófa þetta, endilega taktu þessa uppskrift með þér í eldhúsið.

Döðlu-og gráðaostafylltar kjúklingarúllur vafðar í beikon. 

2 kjúklingabringur sem ég sker endilangt. Fletjið þær síðan út, t.d. með því að fá útrás með steikarpönnunni. :) Ég set stóran glæran plastpoka ofan á þær og lem þær til með pönnunni.

1/2 blár gráðaostur frá MS (má alveg vera aðeins meira, skemmir ekkert fyrir)
8-9 þurrkaðar döðlur
 - Döðlurnar hitaðar í potti með 1 matskeið af vatni og maukaðar. Gráðaostinum hrærður við þar til hann er bráðnaður saman við.

Smyrjið maukinu ofan á bringurnar og kryddið með salti og pipar. Rúllið þeim upp og vefjið með beikoni. Setjið inn í ofn í 50 mín við 200°C og snúið reglulega svo að beikonið steikjist jafnt.

Njótið svo afskaplega vel!

Knús og Kram, Hilja

Sunday, October 13, 2013

Jólaskraut héðan og þaðanJólin nálgast og mig langaði að deila með ykkur nokkrum hugmyndum að skrauti sem ég hef fundið hér og þar.

Ýtið bara á myndirnar og þær leiða ykkur þá á réttar slóðir.

Wednesday, September 18, 2013

Hollt nammi

Þessar kókoskúlur eru alveg sjúklega góðar! Upphaflega uppskriftin var allt öðruvísi en ég var alltaf að betrum bæta og endaði þá með alveg nýja uppskrift og langaði að deila með ykkur þessu góðgæti!

Döðlukókoskúlur

2 dl þurrkaðar döðlur
2 msk vatn 
 - Hitað saman í potti og stappað saman þegar það hitnar. Þá er agave sýrópinu bætt út í, potturinn tekinn af hitanum og klárað að stappa döðlurnar
1/2 dl agave sýróp

Í skál er blandað saman (hrært saman)
2 1/2 til 3 dl kókosmjöl
2 dl haframjöl
4 msk kakó

Þessu tvennu er síðan blandað saman, mótaðar litlar kúlur og velt upp úr kókosmjöli. Geymist best í kæli og þá eru þær líka aðeins stífari.

Verði ykkur að góðu :)

Kveðjur og kossar, Hilja

Monday, September 16, 2013

Gjafakarfa 3 af 8 : Bíókvöldið

Þá er komið að þriðju gjafakörfunni og í þetta skiptið er það bíókarfan. Hægt er að útfæra þetta fyrir fjölskyldur (hafa þá fjölskyldumyndir), par eða stelpu (þá chick flick myndir t.d. Pitch Perfect). Síðan má skipta út örbylgjupoppinu fyrir poppmaís ef þú veist að aðilinn sem á að fá körfuna notar maísinn en ekki örbylgjupopp.

Í þessari körfu er að finna camambert ost, ritz kex, 2 bíómyndir, 2 örbylgjupoppspokar, teppi og eitt kerti fyrir kósýheitin.

Það má vel bæta við körfuna, t.d. heimagert konfekt eða bara keypt súkkulaði, poppsalt eða jafnvel poppvél (ef þú ætlar að gera ofur veglega bíókörfu).

Þessi karfa kostaði 3.073,- krónur.
- Teppi úr Ikea. Hægt að fá teppi frá 750,- kr og upp í 4.990,- kr.
- Kerti úr Ikea. Voru 4 í pakka. Kostaði 394,- kr. Svo að eitt kerti er þá á tæpar 99 kr.
- Ritz kex og camembert ostur kostuðu um 600 kr.
- 6 pakka örbylgjupopp var á 369 kr svo að hver pakki er á 62 kr.
- Bíómyndir má fá frá 150,- kr og upp í kringum 3000 kr í Elko. Þessar voru á um 500 kr hver.
- að lokum er það karfan góða á 500 kr.

Með þessu innihaldi gæti hún farið dýrast í 9.313,- og þá bara með einni bíómynd með tveimur myndum væri það 12.313,- kr. Báðar þessar upphæðir eru orðnar of háar fyrir minn smekk en körfurnar eru yfirleitt hugsaðar til að vera á verðbilinu 3.000,- til 4.500,- kr.

Hlakka til að deila fleirum körfum með ykkur fljótlega ...
... með kveðjum og kossum, Hilja

Wednesday, September 11, 2013

Fyrir þau litlu

Verð að deila með ykkur þessum yndislegu hugmyndum sem ég hef fundið og hæfa yngri kynslóðinni.

Sætasta húfa í heimi!!! Verð að gera þessa við tækifæri :)


Er ekki alltaf að verið að henda pappakössum? Nýtum þá í að gera hús fyrir börnin.


Smá fyrir blómaprinsessuna :)Saturday, August 31, 2013

Góðar hugmyndir héðan og þaðan

Héðan og þaðan ... skemmtilegar hugmyndir sem ég hef fundið annars staðar og langar að deila með ykkur :) Smellið bara á myndirnar til að fara á síðuna.


Indíánatjald í herbergið fyrir litlu indíánana okkar ....


Tilvalið að tína köngla í haustgöngutúrunum og föndra þessa krúttuðu uglu ... 


Veitingastaður fyrir fuglana þegar veturinn gengur í garð ...


Skemmtileg tilbreyting á þessum pappírsskermum .... 


Nýttu kaffikorgið í kókos-og kaffiskrúbb í sturtuna ...

Elska svona skemmtilegar hugmyndir og stundum langar manni að gera meira en maður kemst yfir, ætli það sé ekki oft þannig að manni finnst vanta nokkra klukkutíma í sólarhringinn....

Kossar, kram og knús, Hilja


Monday, August 26, 2013

Endurvinnslan - tómatsósuflaskan

Eins og þið kannski eflaust vitið nú þegar hef ég einstaklega gaman af því að sjá nýtileikann í hlutum sem yfirleitt er litið á sem rusl og fólk hikar ekki við að henda. Í þetta sinn varð tómatsósuflaska fyrir valinu og gerði ég tvær útgáfur af blómavasa. Endilega látið mig vita hvor ykkur finnst flottari.

Ég byrjaði á því að þrífa flöskurnar og hreinsa af þeim límmiðana. Skar síðan skrúfganginn af svo opið væri örlítið víðara og auðveldara að hylja það.
Á fyrri flöskuna notaði ég Mod Podge til þess að festa servíettur á flöskuna og þetta var þá útkoman :

Á seinni flöskuna notaði ég sama veggfóður og ég gerði kassann hér um daginn (úr dótaumbúðunum) og notaði þar einnig Mod Podge til þess að festa fóðrið. Einnig breytti ég aðeins til og lét fóðrið ganga beint upp þar sem flaskan fer að þrengjast og fékk þannig beinni blómavasa.


Sýni ykkur hér ofan í flöskuna til að sjá betur hvað ég gerði.Hver er svo ykkar úrskurður? Hvor vasinn hlýtur vinninginn í þínum augum?

Knús og kram, Hilja

Friday, August 23, 2013

Gjafakarfa 2 af 8 - Fljótlega eldhúsið

Jæja, þá er komið að næstu körfu og er hún hugsuð fyrir þá sem njóta þess að vera í eldhúsinu en hafa kannski ekki alltaf tíma. Hér hef ég sett allt þurrefni sem þarf í hjónabandssælu í krukku og hengt áframhaldandi leiðbeiningar á hana (bæta við 1 eggi og 250 g af smjöri). Síðan læt ég fylgja með heimagerða rabbabarasultu. Í fyrri körfunni hef ég einnig sett Bollakökur Rikku með ásamt sleif og sleikju.


Krukka og efni í hana : 1.300 kr
Sulta : 100 kr
Sleif og sleikja (góði hirðirinn) : 500 kr
Karfa : 500 kr
2 diskaþurrkur úr Ikea : 60 kr stykkið (samtals 120 kr ... alveg heilar)
Bollakökur Rikku : 2.790 kr (má vel sleppa)
Karfa úr góða hirðinum: 500 kr.

Án Bollakökum Rikku : 3.020,- krónur
Með Bollakökum Rikku : 5.810,- krónur

Síðan gerði ég aðra útfærslu á gjafakörfunni og var þá körfunni skipt út fyrir fallega skál sem var þá partur af gjöfinni. 

Krukka og efni í hana : 1.300,- kr
Rabbabarasulta : 100 kr
Diskaþurrkurnar úr Ikea: 120 kr.
Skál (keypt í Kitchen Library) : 1.950,- kr.

Samtals : 3.490,- krónur

Skemmtileg og persónuleg gjöf.

Skrauthjörtun geri ég sjálf og hægt er að kaupa slík hjörtu frá 1.500,- kr og upp í 3.000,- krónur. Þessi á myndunum hér að ofan eru á 1.500,- kr. Hægt að sjá fleiri á Fésbókarsíðunni.

Með kveðjum og kossum, Hilja

Monday, August 19, 2013

Á ferð og flugi .... með barni

Þeir sem eiga börn þekkja það ef til vill vel að stundum vantar börnunum eitthvað að gera á meðan ferðinni stendur og brjóta hana upp á einhvern hátt. Ég kom því með þetta fyrir strákinn okkar, það bæði lætur hann hafa eitthvað gera og brýtur ferðina einstaklega mikið upp.


Rétt er að minnast á að að diskurinn Ligga Ligga Lá er diskur sem hann átti fyrir en til stóð að hann færi þá í tækið í bílnum og við myndum syngja öll saman. Þetta þarf alls ekki að kosta mikið og getur jafnvel verið mun ódýrara heldur en að stoppa í sjoppum á leiðinni og kaupa eitthvað þar ;)

Þið getið nálgast þetta hér að neðan ef þið viljið nýta ykkur þetta. Bara prenta út, klippa og setja teygjur eða bönd til að festa á glaðningana. 


Tuesday, August 13, 2013

Gjafakarfa 1 af 8 - Barnakarfan

Þá er komið að fyrstu gjafakörfunni og auðvitað hefst hún á yngstu kynslóðinni.

Litlu krílin hafa lítið vit á því sem þau eru að fá og oft er gefið það sem foreldrunum finnst barninu vanta. Mér hefur því hingað til fundist afskaplega gaman að útbúa svona barnakörfur þar sem ég týni saman ýmislegt barnadót sem mér langaði til þess að gefa barninu og höfðaði til flestra þátta í lífi barnsins.

Í körfunni er
 - hundur úr Ikea : 1.690,- kr (hægt er að fá mjúkdýr fyrir um 500 kr.)
- baðendur sem ég fékk á ca. 500 kr stykkið
- handklæði úr Lín Design (ekki lengur selt en handklæði nú kosta 3.990,- kr) Einnig hægt að fá barnabaðhandklæði í Ikea á 1.490,- kr.
- Hringlulengja sem ég fékk á 500,- kr
- Bók úr safni barnanna sem ég ætla að láta ganga áfram.
- Karfa fengin úr Góða hirðinum á 500 kr.

Heildarkostnaður : Mest : 7.680, - kr.
                             Minnst : 3.990,- kr.

Það er allt í lagi að gefa dót (þá t.d. eitt hlut úr körfunni eins og ég geri) sem að börnin manns sjálf hafa átt og leyfa öðrum börnum að njóta hennar og þeirra gæðastunda sem hún gefur. Einnig er mjög gaman að láta þá fylgja með miða þar sem sagt er frá því hvaða stundir bókin hefur gefið þeirri fjölskyldu sem gefur gjöfina. Það gerir gjöfina mun persónulegri og skemmtielgri. Allavega finnst mér sjálfri persónulega mjög gaman þegar fólk gefur börnunum mínum dót (heil legt) sem hefur glatt þeirra börn.  Finnst það verulega falleg tilhugsun. Síðan er einnig mjög mikilvægt að vera með augun opin allan ársins hring fyrir hlutum sem sniðugt væri að nota eða gefa. 

Næst verður það gjafakarfa fyrir þá sem elska að elda og finnst ekkert betra en að eyða stundum í eldhúsinu þó svo að tíminn sé oft á tíðum naumur. 

Með kveðju og kossum, Hilja

Sunday, August 11, 2013

Nýtileg endurvinnsla


Ég elska það að finna nýtileika í þeim hlutum sem falla til af heimili og í þessu til viki urðu Cocoa Puffs pakkar fyrir barðinu á mér. Ég þurfti auðvitað að bíða eftir því að ég gæti fengið tvo tóma pakka en hér er þessi munaður einungis leyfður á laugardögum og þá einungis einn diskur, svo að þeir pakkarnir falla ekki hratt til.

Þegar ég var svo loks komin með pakkana mína tvo þá hafði ég ekki tíma í að vinna með þá svo að þeir dvöldu þó nokkra stund inni í skáp og þegar maðurinn minn bauð mér þriðja pakkann horfði ég á hann og sagði "Hvað heldur þú að ég hafi að gera við þriðja pakkann?! Ég ætla mér ekki að safna drasli." Hann horfði því undrunaraugum á mig því fyrir honum voru þessir tveir kassar bara drasl, hvað hafði ég þá á móti þeim þriðja.

Svo loks gafst mér tími til þess að vinna að hugmynd minni en hún spratt út frá mynd sem ég sá í Bolig magasinet. Myndina má sjá hér til hliðar en askjan er ofan á kommóðunni. Ég hef síðan þá rekið augun í svipaðar öskjur.

Thursday, August 8, 2013

Afmælisveislan


Elsti drengurinn átti 4 ára afmæli núna 31. júlí og því var efnt til stórveislu, eða svona næstum því.

Afmælisskreytingin að þessu sinni voru blöðrur sem hengdar voru upp í loftið. Ég var síðan bara með kökur sem er einfalt að gera og sveppasúpu (að ósk sonarins).

Ég vildi hérna deila með ykkur uppskriftinni að súkkulaðikökunni sem ég hef í öllum afmælum orðið og slær í gegn í hvert skipti. 
Hún er unaðslega góð svo ég segi sjálf frá. Ef þið prófið uppskriftina endilega skiljið þá eftir comment og segið hvernig til tókst og hvernig hún bragðaðist.

Súkkulaðikaka

Botnar (3 botnar)

600 gr sykur
425 gr hveiti
135 gr kakó
1 1/2 tsk salt
2 1/4 tsk lyftiduft
2 1/4 tsk matarsódi
3 egg
3/4 bolli olía
1 1/2 bolli mjólk (helst nýmjólk)
1 1/2 bolli heitt kaffi

Hitaðu ofninn í 175°C. Setjið allt saman nema kaffið og hrærið. Þegar deigið er orðið blandað setjið þá kaffið út í. Deigið er mjög blautt en hafið ekki áhyggjur, kakan sjálf verður fullkomin!

Skiptið deiginu í 3 24 cm form og bakið í ca. 30 mínútur. Látið kólna áður en kremið er sett á.

Krem

350 gr sykur
1 1/2 bolli rjómi
215 gr súkkulaði (suðusúkkulaði eða dökkt, t.d. 56%)
12 msk smjör
1 1/2 tsk vanilludropar

Setjið sykurinn og rjómann í pott og hitið þar til sykurinn er allur bráðnaður í rjómann. Látið sjóða á lágum hita í 6 mínútur en fylgist vel með.

Takið þá pottinn af hitanum og setjið súkkulaðið og smjörið út í rjómablönduna og hrærið reglulega í til að það bráðni út í. Bætið síðan vanilludropunum út í. Kælið kremið þar til það er orðið þykkt og meðfærilegt. Ef það er of lint til að smyrja er fínt að bræða smá smjör og blanda við og kæla á ný. Smjörið er það sem gerir kremið þykkara.

Hægt er að gera þriggja hæða köku úr þessu en mér sjálfri finnst best að hafa bara einn botn ... þá fær maður líka út 3 tertur ... þannig að ein uppskrift nær ansi langt.

Kakan er síðan virkilega góð með rjóma eða ís til hliðar.

Hlakka til að heyra hvað ykkur finnst!

Monday, August 5, 2013

Hjörtun farin að flæða ...


Hef svo oft séð svona hjörtu út um allt, búðum, vefsíðum og heima hjá fólki. Mig hefur því lengi langað til að gera slík hjörtu til að hafa hérna hangandi heima hjá okkur.

Ég fann svo loks hið fullkomna efni, þykkt og sterkt og í litnum sem ég var að sækjast eftir. Það tók mig nokkrar tilraunir að ná því útliti á hjörtunum sem mig langaði í en að lokum fékk ég þá útkomu sem ég sóttist í.

Hér má sjá tvö af þeim hjörtum sem urðu til við tilraunastarfsemina.

Síðan er það helst að frétta að ég útbjó síðu á Facebook þar sem munir héðan af síðunni verða til sölu og þar á meðal þessi hjörtu. Síðuna má finna hér:  https://www.facebook.com/hiljainspires. Ég get ómögulega setið uppi með allt sem ég geri, það er farið að flæða út úr skápunum hjá mér.


Hér fyrir neðan er hugmyndin sem ég fékk með hjörtun, með þeim sem ég setti á sölusíðuna. Elska þessi hjörtu.Friday, July 19, 2013

Verslun sumarsins

Verð bara að deila með ykkur blómabúð sem að ég elska að fara inn í. Það eru svo margir fallegir hlutir þarna inni og ef maður lætur gera blómaskreytingu fyrir sig að þá klikkar hún aldrei.

Já, svo að það komi nú fram fyrir þá sem vilja vita að þá er ég að tala um Sjafnarblóm. Ég varð algjörlega heilluð af þessari bláu könnu og bollum, hversu falleg getur ein kanna eiginlega verið.

Ég stökk þarna inn þegar við familían vorum á leið í brúðkaupsveislu á systur mannsins míns og ég var ekki lengi að finna þennan fallega disk og yndislegu smáfugla. Ég setti þetta upp eins og ég vildi hafa allt saman og útskýrði hvernig blómaskreytingu ég vildi fá og viti menn, þegar konan kom til baka varð ég hugfangin af sköpunarverkinu. Ég gekk út eitt stórt bros yfir fullkominni þjónustu og gullfallegri gjöf sem myndi brátt fá nýja eigendur.

Wednesday, July 10, 2013

Listin að kunna að slaka á ....

Sumarfrí fer mér ekki vel, ég iða í skinninu af löngun til að gera eitthvað. Ég er með mörg verkefni í gangi og það stærsta eru líklega jólagjafirnar. Já, þið lásuð rétt jólagjafirnar og ekki seinna vænna, aðeins rétt rúmlega 5 mánuðir í jólin. Ég hef sjaldan verið eins sein og núna. Set hérna mynd af einum hlut sem er partur af hugmynd ... segi ekki meira :) En eldri sonurinn teiknaði þetta á bolla fyrir pabba sinn með þar til gerðum postulínspenna (keyptum í Litir og föndur). Pabbinn auðvitað alsæll með kaffibollann sinn og ég er ekki frá því að það gæti fyrir smá öfund af minni hálfu gagnvart honum.

En ég er að vinna í því að gera lista og hugmyndir yfir gjafir til að gera sjálfur. Mér finnst það persónulega mun skemmtilegri jólagjafir. Ég set þetta inn í hollum og ég vonast til þess að fyrsti hluti líti dagsins ljós fyrir lok júlí. En það eru vonir og væntingar, sjáum til hvort það gangi eftir.

Vildi líka deila með ykkur þessari síðu Card making and paper craft . Ég er algjörlega sokkin ofan í hana, ekki af því að ég er mikið í því að gera kort heldur möguleikana sem þessi síður býður upp á til að skapa eitthvað algjörlega nýtt. Ef þið eruð heppin deili ég kannski með ykkur nokkrum hugmyndum og útfærslum bráðlega. En það er verkefni 2 sem ég er með í gangi. 

3 verkefnið sem ég er með er að sauma mér flík, ég setti það á sumarlistann (sjá hér)og ætla mér að standa við það enda eitt af því sem mig langaði mikið til að gera áður en vinna hefst á ný.

Spurning um að fá sér einn vænan bolla af kaffi og þykjast slaka á....................

Thursday, June 27, 2013

Ódýr og falleg hirsla til að gera heima

Mig vantar alltaf eitthverja kassa til þess að geyma smáhluti í, t.d. hárdótið eða hárvörurnar ... snyrtidótið jafnvel. En mér finnst fallegar hirslur vera svo dýrar. Ég datt niður á þetta fallega veggfóður á lagersölu sem er staðsett á Kauptúni, rúllan kostaði einungis 1500 krónur. Eftir að hafa keyrt í eftirvæntingu með það heim greip ég kassa utan af dóti sem Kári minn fékk í afmælisgjöf, skar lokið af því og límdi veggfóðrið á hann með ModPodge (fæst í föndurbúðinni í Holtagörðum t.d.). Núna prýðir hann baðherbergishilluna og geymir fyrir mig teygjur og spennur. Er mjög ánægð með hann. 

Endilega farið inn í færsluna til að sjá myndirnar og hvernig ég gerði kassann. 

Thursday, June 20, 2013

Með bros á vör og kamb í hári tek ég nú sumrinu mót


 Er búin að vera að leika mér að gera kamba undanfarið ... hér er t.d. einn af þeim. Síðan er spurningin hvað á maður að gera síðan við alla þessa kamba sem eru farnir að safnast upp í skáp ....

Var fengin til að gera blómaskreytingu úr blómum úr íslenskri náttúru um daginn og er nokkuð ánægð með árangurinn. Kökustandurinn er í minni eigu, hannaður af mér en smíðaður af góðvini mínum Frey Geirdal (og ég er honum óendanlega þakklát!)

 Og í tilefni þess að í dag varð ég árinu eldri ætla ég að skella líka einni mynd með af augasteinunum mínum. Ég elska þá svo heitt og innilega. Þó að veikindi hafi hamlað grósku tilfinninga gagnvart þeim yngri að þá sé ég ekki sólina fyrir honum í dag ... eitt ár getur breytt mörgu, vægast sagt.

Vona að þið séuð að njóta sumarsins og gera það sem gerir sumarið eftirminnilegt og einstakt. Fyrir okkar leiti að þá erum við búin að krossa við fjögur atriði á sumarlistanum okkar ... og eftir helgina getum við krossað við enn fleiri atriði .... það er svo gaman að merkja við!!!!


Kveð ykkur í bili, Hilja

Thursday, June 13, 2013

Einmanalegu servíetturnar

Hver kannast ekki við að eiga heilan helling af servíettum inni í skáp hjá sér, eitt eða tvö stykki af hverri tegund. Ég er búin að horfa þó nokkuð á nokkrar servíettur hjá mér og hugsað með mér hvað ég gæti gert við þær. Ég gæti alveg notað þær í veislu, enginn með eins servíettu, en ég á ekki nóg af servíettum í þess konar aðferð.

Manni mínum til mikillar "ánægju" sanka ég að mér alls kyns dollum, dósum og kössum. Þar á meðal átti ég þrjár dollur utan af camembert osti. Ég tók þar fram ásamt pensli fyrir lím og Mod Podge (fæst t.d. í föndurbúðinni í Holtagörðum ... sem er meðal annars draumaveröldin mín). Tók servíetturnar í sundur en hver servíetta er oft gerð úr tveimur eða þremur lögum að pappír. Ég byrjað á að nota innsta lagið sem er yfirleitt litlaust og notað það sem fyrstu umferð á dolluna, síðan tók ég mið-pappírinn og límdi hann á og að lokum ysta lagið sem er þá með mynstrinu á.

Leyfi þessu að þorna og voilá, þá verður til þessi fallega askja. Vel hægt að nota hana til að geyma eitthvert smádót á heimilinu eða sem gjafaösku. Þannig að núna verður camembert ostur í matinn á hverju kvöldi hjá okkur .... :)

Kv. Hilja