Wednesday, September 3, 2014

Snilldar gúllas


Ég lenti í því síðasta mánudag kl. 17:30 að uppgötva það að ég var ekkert búin að pæla í kvöldmat. Ísskápurinn svo gott sem tómur. Þá voru góð ráð dýr. Ég kippti gúllaskjöti upp úr kistunni og því sem til var í ísskápnum. Úr varð þessi gúllasréttur sem sló í gegn hjá öllum í familíunni. Sá yngsti sem heldur að kjötbitar séu ómanneskjuleg fæða fannst sósan og hrísgrjónin góð sem er toppeinkunn hjá þeim sem til þekkja.

Án frekari málalenginga að þá er hér þessi snilldar réttur :)

Gúllas tóma ísskápsins
600 g gúllas (nauta eða kinda)
1 laukur
4 hvítlauksgeirar
1 appelsínugul papríka
200 g hakkaðir niðursoðnir tómatar
5 dl rjómi (má alveg setja 2,5 rjómi og 2,5 vatn)
3 msk rjómaostur
1 grænmetisteningur (eða sambærilegan kraft)
1 nautakjötsteningur (eða sambærilegan kraft)
2 lárviðarlauf
Pipar

Skerið laukinn og hvítlaukinn og steikið á stórri pönnu í smjörklípu. Þegar laukurinn fer að verða glær að setja þá papríkuna út á, steikja smávegis og bæta síðan gúllasbitunum út á. Steikið bitana þar til þeir verða nær lokaðir og setjið þá út í allt nema piparinn. Sjóðið saman í 30-40 mín á miðlungshita. Ef hún fer að verða of þykk sósan að þá er um að gera að bæta smávegis vatni við. Piprið síðan gúllasið eftir smekk og ef ykkur finnst vanta salt þá getið þið bætt því við en það er svo mikið saltmagn í teningunum að mér fannst ekki vanta salt.

Borið fram með hrísgrjónum og grænmeti.

Ef það er til grænmeti í ísskápnum að þá er um að gera að bæta því út í með papríkunni en ég átti ekkert annað en papríku í fátæklega ísskápnum mínum þennan daginn. En gott var þetta!