Saturday, May 12, 2012

Endurlífgun á peysu


Hver kannast ekki við það að eiga peysu inni í skáp sem hefur einungis verið notuð einu sinni eða svo sjaldan að ekki er hægt að rifja upp hvenær hún var notuð síðast? Ég er búin að eiga nokkrar þannig og þegar ég horfði á eina þeirra datt mér í hug að færa hana aftur til lífs. Ég hef aldrei fílað hana sem peysu en ég gæti vel notað hana sem bundnar ermar. Ég set hér með sýnikennslu á því hvernig það er hægt. Eins og sjá má hér fyrir neðan er breytingin þó nokkur.


Hvernig má breyta ónothæfri peysu í eitthvað nothæft ....Hér má sjá peysuna eins og hún leit út í upphafi ... nánast ónotuð.
Ég byrjaði á því að taka litla v-ið í hálsmálinu burtu með því að rekja upp saumana sem festu það við peysuna.

Því næst mældi ég á sjálfri mér hversu langt væri frá handarkrika og um 5-6 cm fyrir neðan brjóstalínu til þess að vita hvar ætti að klippa á peysunni. Ég mældi svo sömu lengd niður úr handarkrikanum á peysunni (og peysan á röngunni), merkti við beggja vegna á peysunni. Mældi mig síðan þvert yfir peysuna, festi hana með títuprjónum og klippti að lokum þvert yfir.


Eftir að hafa mælt og klippt yfir lítur peysan svona út. Neðri hluta peysunnar verður nýttur í böndin sem hnýtt eru aftur fyrir bak.
Ég tók beina línu niður úr miðju hálsmálinu og mældi þrjá cm út frá miðju í báðar áttir (innri hvíta línan). Því næst dró ég beina línu niður úr miðju hálsmálinu og að punktunum beggja vegna við miðju. Ég mældi síðan lengd línunnar sem í þessu tilviki voru 14 cm.

Ég rakti upp aðra hliðina á neðri hlutanum svo að ég fengi sem lengstan renning. Mældi síðan 16 cm niður öðru megin á renningnum (þar sem lengdin á efri hlutanum mældist 14 cm bæti ég við 2 cm til að gera ráð fyrir faldi). Á miðjum renningnum mældi ég 8 cm (helmingurinn af 16) og við endann mældi ég 4 cm niður (1/4 af 16). Ég dró svo beina línu á milli þessara punkta og klippti. Ég lagði síðan þennan renning öfugt ofan á efnið sem eftir er af neðri hlutanum, festi hann með títuprjónum og klippti síðan beint eftir. Þá stend ég uppi með flíkina eins og sést á þessari mynd.

 Ég klippti síðan upp línurnar sem mældust 14 cm því þar á að festa renningana við efra peysustykkið. Því næst notaði ég sikk sakk saum á alla staðina sem ég klippti til að loka efninu. Ég fann síðan út hvoru megin hver renningur átti að fara (passa að bæði renningur og efra peysustykki sé á röngunni). Þannig finnur maður út hvað snýr upp á renningnum og þann hluta skal falda 1 cm niður.
Þegar búið er að falda efri hluta renningsins um 1 cm skal leggja renninginn á sinn stað á efri hluta peysunnar. Mikilvægt er að leggja rétturnar á stykkjunum saman. Festa síðan með títuprjónum niður og sauma saman (staðsetjið nálina um 1 cm inn á efnið og saumið niður). Ég reyndi að gæta þess að renningurinn heldi svipuðum eða sama halla og er í hálsmálinu.
Þetta er síðan endurtekið við hinn renninginn.
Eftir það er neðri hluti peysuhlutans og neðri hluti renninganna faldaðir upp um 1 cm. Endann á renningnum leggur maður síðan inn á sjálfan sig eftir földun og saumar yfir á 2 stöðum til að loka endunum (þetta gerist eftir að búið er að falda alla flíkina).


Eftir þetta er ekki annað að gera en að fara í endurlífguðu flíkina sína og njóta.

Ég er alla vega mjög ánægð með útkomuna mína og á pottþétt eftir að nota þessa flík mun oftar en ég notaði peysuna, sem mér fannst bæði of stutt og ýta undir þá þætti líkamsvöxtsins sem ég vildi ekki láta ýta undir.

Mér finnst líka nýja flíkin fara mun betur við stúdíoíbúð litla krílisins, hvað finnst ykkur? Endilega skiljið eftir ykkur spor hér fyrir neðan (í "leave a reply") og segið mér hvað ykkur finnst ...

No comments:

Post a Comment