Saturday, May 12, 2012

Kjúklingurinn hittir Sesar


Í gær gerði ég frábært salat fyrir mig og manninn minn. Sonur okkar var hjá ömmu sinni og afa svo að við ákváðum að nýta tækifærið og gera okkur salat, þar sem það slær ekkert sérstaklega í gegn hjá drengnum. Ég átti smá afgang af kjúkling frá því á laugardagskvöldið sem ég ákvað að nota. Þetta var svo gott allt saman. Ég gleymdi reyndar alveg að taka mynd sem er synd af því þetta leit svo vel út! Ég gerði mína eigin dressingu þar sem við erum hvorugt mikið fyrir þær dressingar sem finnast úti í matvörubúðunum. Okkur finnst þær oft á tíðum þungar og eru stundum svo óhollar að það hálfa væri hellingur. Þannig að af hverju ekki að taka sig til og gera eitthvað sem manni finnst virkilega góð dressing???
Hér er svo uppskriftin af salatinu (er fyrir ca. 2-3)


KJÚKLINGURINN

Afgangskjúklingur (magn á við eina kjúklingabringu)
Steinselja
Hvítlauksduft
Salt og pipar 
Skerið kjúklinginn í þunnar og litlar sneiðar. Steikið á pönnu ásamt kryddinu þar til bitarnir fara að taka á sig brúnan lit.

DRESSINGIN

2-3 hvítlauksgeirar, pressaðir
1 matskeið sinnep (sú týpa sem þér finnst best, Dijon sinnep eða eitthvað sætara)
1 matskeið edik (ég nota hvítvínsedik)
2 matskeiðar grísk jógúrt
1 matskeið sítrónusafi
u.þ.b. 1 dl af ólífuolíu. Ekki setja allt út í strax, settu frekar hluta og hluta út í einu og finndu út hversu mikinn þykkleika þú vilt hafa.
Salt og pipar 
Setjið allt saman í matvinnsluvél eða blandara og hrærið þar til dressingin er orðin samfelld og hefur silkikennda áferð.

BRAUÐTENINGAR (SESAR SALATS HÁTTURINN)

5 sneiðar af brauði (ég notaði gamalt samlokubrauð)
3-4 matskeiðar smjör (best að nota íslenskt smjör)
1 matskeið hvítlauksduft
1 teskeið papríkuduft
 1 teskeið pipar.
Skerið brauðið í teninga. Bræðið smjörið á pönnu og bætið svo út í kryddunum. Blandið saman. Setjið svo brauðteningana út á og hrærið öllu vel saman. Steikið svo teningana þangað til þeir eru orðnir gullnir.

MEISARAVERK Í BÍGERÐ

Kál (ég notaði eikarlauf, iceberg, rauðrófublöð og lambhagasalat - ég vil frekar milt kál)
Gúrka
Papríka (um að gera að velja sér papríku í skærum lit, t.d. appelsínugula)
Döðlur (gefa æðislegt sætt bragð og koma á óvart en yfirtaka ekki neitt)
Blaðlaukur 
Skerið allt í þá stærð sem þú vilt. Ég sjálf ríf niður kálið og sker annað í smáa bita eða ferninga.
Setjið salatið í skál, kjúklinginn ofan á ásamt brauðteningunum og toppið með dressingunni. Fyrir þá sem vilja er hægt að rífa parmesan ost yfir eða jafnvel prófa hvítlauksost, villisveppaost eða piparost. Um að gera að breyta til.
Verði þér og ykkur innilega að góðu!

No comments:

Post a Comment