Friday, June 27, 2014

Endurunnið grillkjöt?

Ef það er eitthvað sem að ég þoli ekki í eldhúsinu að þá er það að henda mat. Ég lenti í því í vikunni að ég var komin með grjónagraut, hakkabollur og afgang af grísabógssteik í ísskápinn. Einn einstakur réttur nægði ekki fyrir alla familíuna þannig að þá var eina ráðið að hafa allt saman. Þegar ég og Bjössi kynntumst á sínum tíma að þá var hann ekki mikið fyrir endureldaðan mat og sagði hreint út að upphitaður matur væri vondur.

Þeir sem þekkja mig vita ofur vel að þegar svona er sagt við mig geri ég allt til að breyta skoðun þeirra því ég veit að slíkur matur getur verið ofur góður. Ég braut því heilann yfir þessum 270 g af grísabógssteik sem ég átti eftir, skoðaði uppskriftir en fann ekkert spennandi. Sá reyndar nokkrar uppskriftir þar sem að grískjöt hafði verið rifið niður og blandað við BBQ sósu og sett á hamborgarabrauð. Þá fékk ég hugmyndina. Ég geri borgara úr þessu kjöti.

Ég byrjaði á því að skera kjötið í minni bita og setja í blandarann minn og stilla á söxun. Ég er svo heppin að eiga Kitchen Aid blandara með hinum margvíslegu stillingum. Ég saxaði þar til það leit út eins og meðfylgjandi mynd sýnir.Ég setti í skál:

 • 270 g af kjötikurlinu (sem var öll heildin hjá mér.
 • Eitt pískað eggi 
 • 1 msk af Worcestershire sósu
 • 20 g af smátt söxuðum lauk ... má alveg setja aðeins meira af honum en það fer bara eftir smekki og vilja fólks. Við sjálf viljum ekki of mikið af lauk í matnum. 

Síðan er bara að hnoða þetta saman og búa til tvo hamborgara úr kjötinu og steikja á pönnu. 
Ég setti smá smjörklípu á pönnuna því mér finnst það gefa smá bragð í kjötið ásamt því að mér finnst það ekki jafn þurrt. Þegar ég var búin að snúa kjötinu einu sinni skellti ég sveppum með á pönnuna og síðan smávegis af beikoni sem var við það að skemmast inni í ísskápnum en það hafði orðið afgangs á afmælisdaginn minn. Ég steikti tvisvar á hverri hlið á borgaranum og þegar kom að því að snúa honum við í síðasta skipti smurði ég smá BBQ sósu á botninn sem átti eftir að steikja í annað skiptið. Setti síðan ost á toppinn. 

Borgarana setti ég á venjulegt hamborgarabrauð með sósu sem er gerð úr grískri jógúrt og nóg af graslauk sem er þynnt út með vatni. Nóg af grænmeti, borgarinn ofan á það og sveppablandan næst á eftir ásamt sósu. Hatturinn kemur síðan efst. 


Áður en ég byrjaði á borgurunum útbjó ég léttvægari hasselback kartöflur, þ.e. skar bara örfáar ræmur og ekki djúpt niður, smurði með ólífuolíu, setti pipar og salt á þær og henti þeim síðan inn í ofn við 200°C í 30-40 mínútur. Þegar þær voru hálfnaðar með eldunartímann setti ég smá smjörklípu ofan á og tíu mínútum áður penslaði ég þær með því sem var í botninum á forminu.

Ég lýg því ekki ... þetta "upphitaða" kjöt varð að alveg virkilega góðum borgara.

Endurvinnsla? 

Verði þér að góðu. 

Tuesday, June 24, 2014

Brúðkaupsgaman
Góðir vinir okkar, þau Halli og Ásta, giftu sig laugardaginn 21. júní. Þetta var yndisleg athöfn undir berum himni rétt við Nauthól. Maðurinn minn var beðinn um að vera veislustjóri og ég fékk að vera með.

Við vinnum afskaplega vel saman. Ég fæ hugmyndir og hann útfærir þær þannig að þær séu framkvæmanlegar og á það sérstaklega við þetta "brúðkaupshjól". Ég kom með hugmyndina og hvernig ég sæi þetta fyrir mér og Bjössi smíðaði standinn meðan ég útbjó hjólið sjálft með svörtu teipi og hjartalaga miðum. Í brúðkaupsveislunni sjálfri áttu borðin að senda af og til fulltrúa sinn til að snúa því. Flest á hjólinu sneri að eitthverju sem háborðið átti að framkvæma. Virkilega skemmtilegt tvist í brúðkaupsveislunni og við mjög ánægð með útkomuna.

Þetta vinafólk okkar á heima úti í Sviss og þar af leiðandi vildu þau helst fá pening í brúðkaupsgjöf þar sem þau vildu ekki vera að ferðast með mikið af dóti til Sviss. Við vinirnir tókum okkur saman í gjöf og ég gerði fiðrildi úr tveimur af þúsund krónunum, teiknaði og málaði myndina í rammann og skundaði síðan í Ikea þar sem ég fann þennan fallega bakka, fjólubláa skraut og rammann. Mér finnst svo leiðinlegt að gefa bara pening í umslagi og tók þennan vinkil á gjöfina. Ég er mjög sátt við útkomuna og vinirnir virtust ánægðir með hvernig ég leysti gjafarútlitið af hendi. :)

Það er hægt að finna margar hugmyndir um hvernig hægt er að brjóta saman peninga á youtube, bara slá upp money origami í leitarstikunni og þá koma trilljón hugmyndir og fínar leiðbeiningar, síðan er það bara að finna það sem að hentar manni best. 

Sunday, June 15, 2014

Ítalskt kartöflusalat


Virkilega gott kartöflusalat hér á ferð. Ég sjálf er ekki mikið fyrir kartöflusalat með majonesi eða sýrðum rjóma svo að þetta salat hitti beint í mark hjá mér. Þetta er bæði létt, sumarlegt og bragðgott.

Ítalskt kartöflusalat 

 • 800 g kartöflur - skornar í báta
 • smá olía til að setja yfir kartöflurnar
 • salt og pipar

  Setjið kartöflurnar í eldfast mót, setjið olíu yfir og salt og pipar. Blandið saman og bakið inni í ofni við 220°C í um 30 mínútur. Veltið þeim reglulega til. Þegar þær eru fullabakaðar, takið þær út úr ofninum og kælið.
 • 10 sólþurrkaðir tómatar, saxaðir í smáa bita
 • 1 dl af smátt saxaðri ferskri steinselju (helst flatlaufa)
 • 1,5 dl valhnetur (má líka blanda valhnetum og pekanhnetum)
 • 1 þríhyrningur parmesanostur, gróft rifinn.

  Ristið hneturnar á bökunarpappír í ofni, ca. 4 mínútur í 200°C heitum ofni. Þær eiga að brúnast örlítið en alls ekki var svartan lit á sig. Kælið þær síðan örlítið og saxið í smærri bita. Blandið síðan öllum ofangreindum hráefnum saman. 

 • 1 dl olía (ólífu eða Isio)
 • 1 msk dijon sinnep 
 • 2 msk balsamik edik

  Pískið dressinguna vel saman og setjið yfir kartöflusalatið rétt áður en á að borða það, mér finnst fínt að gera það ca. 20-30 mínútum áður. Ef dressingin er látin vera of lengi í salatinu finnst mér það verða svolítið blautkennt. 
Þetta hentar einstaklega vel með öllum grillmat ... algjört lostæti! 

Verði ykkur að góðu, kv. Hilja
Fengið upphaflega hjá vinotek.is

Friday, June 13, 2014

Sumarlistinn 2014

Við fjölskyldan gerðum sumarlista síðasta sumar og það var virkilega gaman að gera hlutina sem voru á honum og krossa við. Þegar sumrinu lauk var síðan vel sýnilegt hvað við höfðum gert yfir sumarið. Við ákváðum því að gera aftur sumarlista fyrir þetta sumar og vildi ég deila því með ykkur. Bæði listanum okkar og síðan tómum lista ef þið mynduð vilja nýta ykkur formið :)
Það er margt hægt að bralla sem ekki þarf að kosta mikið og það verða oft bestu minningarnar. Ég man til að mynda eftir því eitt sumarið þegar ég var um 8 ára að mamma og ég fórum í sundbolina okkar og máluðum hvor aðra hátt og lágt og skelltum okkur síðan í heita pottinn. Þetta uppátæki kostaði ekki mikið en minningin færir mér ávallt bros. Vonandi á sumarið eftir að færa ykkur margar slíkar minningar.

Góða skemmtun í sumar.