Thursday, August 8, 2013

Afmælisveislan


Elsti drengurinn átti 4 ára afmæli núna 31. júlí og því var efnt til stórveislu, eða svona næstum því.

Afmælisskreytingin að þessu sinni voru blöðrur sem hengdar voru upp í loftið. Ég var síðan bara með kökur sem er einfalt að gera og sveppasúpu (að ósk sonarins).

Ég vildi hérna deila með ykkur uppskriftinni að súkkulaðikökunni sem ég hef í öllum afmælum orðið og slær í gegn í hvert skipti. 
Hún er unaðslega góð svo ég segi sjálf frá. Ef þið prófið uppskriftina endilega skiljið þá eftir comment og segið hvernig til tókst og hvernig hún bragðaðist.

Súkkulaðikaka

Botnar (3 botnar)

600 gr sykur
425 gr hveiti
135 gr kakó
1 1/2 tsk salt
2 1/4 tsk lyftiduft
2 1/4 tsk matarsódi
3 egg
3/4 bolli olía
1 1/2 bolli mjólk (helst nýmjólk)
1 1/2 bolli heitt kaffi

Hitaðu ofninn í 175°C. Setjið allt saman nema kaffið og hrærið. Þegar deigið er orðið blandað setjið þá kaffið út í. Deigið er mjög blautt en hafið ekki áhyggjur, kakan sjálf verður fullkomin!

Skiptið deiginu í 3 24 cm form og bakið í ca. 30 mínútur. Látið kólna áður en kremið er sett á.

Krem

350 gr sykur
1 1/2 bolli rjómi
215 gr súkkulaði (suðusúkkulaði eða dökkt, t.d. 56%)
12 msk smjör
1 1/2 tsk vanilludropar

Setjið sykurinn og rjómann í pott og hitið þar til sykurinn er allur bráðnaður í rjómann. Látið sjóða á lágum hita í 6 mínútur en fylgist vel með.

Takið þá pottinn af hitanum og setjið súkkulaðið og smjörið út í rjómablönduna og hrærið reglulega í til að það bráðni út í. Bætið síðan vanilludropunum út í. Kælið kremið þar til það er orðið þykkt og meðfærilegt. Ef það er of lint til að smyrja er fínt að bræða smá smjör og blanda við og kæla á ný. Smjörið er það sem gerir kremið þykkara.

Hægt er að gera þriggja hæða köku úr þessu en mér sjálfri finnst best að hafa bara einn botn ... þá fær maður líka út 3 tertur ... þannig að ein uppskrift nær ansi langt.

Kakan er síðan virkilega góð með rjóma eða ís til hliðar.

Hlakka til að heyra hvað ykkur finnst!





1 comment:

  1. Vá hvað ég er að fara að prufa þessa uppskrift í næsta barnaafmæli :)

    ReplyDelete