Friday, March 15, 2013

MMMMMmmmm þetta líkar mér ....

Mér finnst ekkert jafn gaman og að dunda mér í eldhúsinu við að skapa góðan mat. Skemmtilegast er ef hann er litríkur því að það er aldrei of lítið af lit í lífinu. Eftir erfiðan dag er yndislegt að geta slakað á í eldhúsinu og afraksturinn oft á tíðum unaðslegur svo ég segi sjálf frá. Mig langaði að deila hér með ykkur einni af þeim afurðum sem hafa orðið til við þessar aðstæður. Þessi réttur er skammtaður fyrir einn.


OFNBAKAÐ GRÆNMETI MEÐ KÚSKÚS


Hér til hliðar er ég með
  • 2 gulrætur
  • 1/2 sæt kartafla
  • 1 bolla af niðurbituðu graskeri
  • 1/2 papriku
  • 1 lítill haus spergilkál
  • 1/2 laukur
Ykkur er hinsvegar auðvitað velkomið að nota það grænmeti sem þið kjósið helst. Um að gera að nota þessa uppskrift til að klára grænmetið áður en farið er að versla inn nýtt. Þá er líka hægt að lausfrysta skorið og blandað grænmeti í pokum til að geta gripið í þegar tíminn er minni. 

Í þennan rétt þarf einnig :
  • 1/2 bolla af kús kús (cous cous)
  • 3 sólþurrkaða tómata og tsk af olíunni
  • 2 tsk ferskt rósmarín eða 1 tsk þurrkað
  • salt og pipar
  • fetaostur í kryddolíu
  • 1 msk ólífuolía (ekki extra virgin)

Skerið allt grænmetið niður, veltið upp úr 1 msk af ólífuolíu, rósmarín, salti og pipar. Setjið inn í 180°C heitan ofn og bakið í 30 mínútur. Þegar ca. 10 mínútur eru eftir af bökunartímanum sjóðið þá cous cous eftir leiðbeiningum en setjið sólþurrkuðu tómatana og 1 tsk af olíunni út í vatnið. 

Setjið allt saman á disk og setjið smá af fetaostinum og pínu af olíunni yfir grænmetið. Njótið svo þess í botn.


1 comment: