Sunday, November 11, 2012

Meira fyrir minna ... í peningum og kaloríum

Eftir að ég átti seinni strákinn minn ákváðum við hjónakornin að taka matarræðið okkar í gegn. Við viljum bjóða börnum okkar upp á hollan og góðan mat, helst sem má borða eins mikið af og hægt er. Við erum ekki efnamikil og þar sem hollar vörur kosta oft dágóðan pening verður maður að reyna að gera sem best úr sem minnstu. Ég ætla hér að deila með ykkur tveimur aðalréttum og einum eftirrétti (sem virkar líka vel í kaffinu), sem voru aðeins gerðir fyrir einn þannig að auðvelt er að margfalda upp í þann fjölda sem óskað er.

Ég elska eplapæið mitt út í hið endalausa og get ekki fengið nóg af því. Með hina réttina þarf ég einungis að breyta kryddunum aðeins og ég get borðað mig vel sadda með góðri samvisku.

Heilhveitipasta með graskeri

ca. 250 g af óelduðu graskeri (butternut squash)
1 bolli af heilhveitipasta (ég notaði skrúfur)
1 msk sýrður rjómi
1 msk ólífuolía
múskat (nutmeg)
salt og pipar

Skerið graskerið niður í litla kubba, dreifið á bökunarplötu með bökunarpappír undir. Dreifið olíunni yfir kubbana og kryddið með múskati (ca. 1-2 tsk), salti og pipar. Veltið kubbunum til með fingrunum svo að kryddið verði sem jafnast. Bakið við 180°C í um 30-45 mínútur eða þar til graskerið er orðið mjúkt, það á ekki að brenna.

Hitið vatn að suðu og setjið pastað út í og sjóðið samkvæmt leiðbeiningum. Ég sett oft smá salt með í vatnið.

Maukið graskerið ásamt sýrða rjómanum. Blandið maukinu saman við soðna pastað. Hægt er að krydda þetta til eftir smekk.


Mac'n'chesse í lífstílsbreytingu

ca. 250-300 g af blómkáli (má líka hafa blöndu af blómkáli og brokkolíi)
1 bolli af heilhveitimakkarónum
3-4 msk kotasæla
1 tsk múskat (nutmeg)
1/2 tsk karrí
(ég set stundum einnig hnífsodd af chili dufti)
salt og pipar
Ostur

Sjóðið blómkálið eða bakið inni í ofni (það gefur aðeins meira bit í grænmetið). Ef þið viljið fremur sjóða skuluð þið passa að ofsjóða það ekki þar sem það á eftir að fara stutt inn í ofn.

Hitið vatn að suðu og sjóðið síðan makkarónurnar eftir leiðbeiningum.

Blandið öllum hráefnum saman í eldfast mót og ost yfir. Setjið inn í ofn á blæstri á ca. 200°C eða undir grill og bakið þar til osturinn verður gullinn og girnilegur. Borðist með hreinni og léttri samvisku.


Eplapæ í poka

1 epli (ég nota yfirleitt Jona Gold)
1/2 dl haframjöl
2 msk rúsínur
2 tsk kókosolía
1 tsk hunang
1 tsk kanill

Skerið eplið í bita og setjið í álpappírshreiður. Setjið öll önnur hráefnin ofan á, lokið hreiðrinu og bakið í um 25-30 mínútur við 180°C. Berist fram strax.

1 comment:

  1. mmm ætla að mér svona eplapæ í poka, elska HOLLT nammi :)

    ReplyDelete