Friday, June 27, 2014

Endurunnið grillkjöt?

Ef það er eitthvað sem að ég þoli ekki í eldhúsinu að þá er það að henda mat. Ég lenti í því í vikunni að ég var komin með grjónagraut, hakkabollur og afgang af grísabógssteik í ísskápinn. Einn einstakur réttur nægði ekki fyrir alla familíuna þannig að þá var eina ráðið að hafa allt saman. Þegar ég og Bjössi kynntumst á sínum tíma að þá var hann ekki mikið fyrir endureldaðan mat og sagði hreint út að upphitaður matur væri vondur.

Þeir sem þekkja mig vita ofur vel að þegar svona er sagt við mig geri ég allt til að breyta skoðun þeirra því ég veit að slíkur matur getur verið ofur góður. Ég braut því heilann yfir þessum 270 g af grísabógssteik sem ég átti eftir, skoðaði uppskriftir en fann ekkert spennandi. Sá reyndar nokkrar uppskriftir þar sem að grískjöt hafði verið rifið niður og blandað við BBQ sósu og sett á hamborgarabrauð. Þá fékk ég hugmyndina. Ég geri borgara úr þessu kjöti.

Ég byrjaði á því að skera kjötið í minni bita og setja í blandarann minn og stilla á söxun. Ég er svo heppin að eiga Kitchen Aid blandara með hinum margvíslegu stillingum. Ég saxaði þar til það leit út eins og meðfylgjandi mynd sýnir.







Ég setti í skál:

  • 270 g af kjötikurlinu (sem var öll heildin hjá mér.
  • Eitt pískað eggi 
  • 1 msk af Worcestershire sósu
  • 20 g af smátt söxuðum lauk ... má alveg setja aðeins meira af honum en það fer bara eftir smekki og vilja fólks. Við sjálf viljum ekki of mikið af lauk í matnum. 





Síðan er bara að hnoða þetta saman og búa til tvo hamborgara úr kjötinu og steikja á pönnu. 
Ég setti smá smjörklípu á pönnuna því mér finnst það gefa smá bragð í kjötið ásamt því að mér finnst það ekki jafn þurrt. Þegar ég var búin að snúa kjötinu einu sinni skellti ég sveppum með á pönnuna og síðan smávegis af beikoni sem var við það að skemmast inni í ísskápnum en það hafði orðið afgangs á afmælisdaginn minn. Ég steikti tvisvar á hverri hlið á borgaranum og þegar kom að því að snúa honum við í síðasta skipti smurði ég smá BBQ sósu á botninn sem átti eftir að steikja í annað skiptið. Setti síðan ost á toppinn. 

Borgarana setti ég á venjulegt hamborgarabrauð með sósu sem er gerð úr grískri jógúrt og nóg af graslauk sem er þynnt út með vatni. Nóg af grænmeti, borgarinn ofan á það og sveppablandan næst á eftir ásamt sósu. Hatturinn kemur síðan efst. 


Áður en ég byrjaði á borgurunum útbjó ég léttvægari hasselback kartöflur, þ.e. skar bara örfáar ræmur og ekki djúpt niður, smurði með ólífuolíu, setti pipar og salt á þær og henti þeim síðan inn í ofn við 200°C í 30-40 mínútur. Þegar þær voru hálfnaðar með eldunartímann setti ég smá smjörklípu ofan á og tíu mínútum áður penslaði ég þær með því sem var í botninum á forminu.

Ég lýg því ekki ... þetta "upphitaða" kjöt varð að alveg virkilega góðum borgara.

Endurvinnsla? 

Verði þér að góðu. 

No comments:

Post a Comment