Tuesday, June 24, 2014

Brúðkaupsgaman
Góðir vinir okkar, þau Halli og Ásta, giftu sig laugardaginn 21. júní. Þetta var yndisleg athöfn undir berum himni rétt við Nauthól. Maðurinn minn var beðinn um að vera veislustjóri og ég fékk að vera með.

Við vinnum afskaplega vel saman. Ég fæ hugmyndir og hann útfærir þær þannig að þær séu framkvæmanlegar og á það sérstaklega við þetta "brúðkaupshjól". Ég kom með hugmyndina og hvernig ég sæi þetta fyrir mér og Bjössi smíðaði standinn meðan ég útbjó hjólið sjálft með svörtu teipi og hjartalaga miðum. Í brúðkaupsveislunni sjálfri áttu borðin að senda af og til fulltrúa sinn til að snúa því. Flest á hjólinu sneri að eitthverju sem háborðið átti að framkvæma. Virkilega skemmtilegt tvist í brúðkaupsveislunni og við mjög ánægð með útkomuna.

Þetta vinafólk okkar á heima úti í Sviss og þar af leiðandi vildu þau helst fá pening í brúðkaupsgjöf þar sem þau vildu ekki vera að ferðast með mikið af dóti til Sviss. Við vinirnir tókum okkur saman í gjöf og ég gerði fiðrildi úr tveimur af þúsund krónunum, teiknaði og málaði myndina í rammann og skundaði síðan í Ikea þar sem ég fann þennan fallega bakka, fjólubláa skraut og rammann. Mér finnst svo leiðinlegt að gefa bara pening í umslagi og tók þennan vinkil á gjöfina. Ég er mjög sátt við útkomuna og vinirnir virtust ánægðir með hvernig ég leysti gjafarútlitið af hendi. :)

Það er hægt að finna margar hugmyndir um hvernig hægt er að brjóta saman peninga á youtube, bara slá upp money origami í leitarstikunni og þá koma trilljón hugmyndir og fínar leiðbeiningar, síðan er það bara að finna það sem að hentar manni best. 

2 comments:

  1. Snilldarlega vel gert!
    Enn einu sinni sýnir Hilja hvað hún er endalaust hugmyndarík! Ekki verra að eiga þúsundþjalasmið fyrir eiginmann sem getur svo komið hugmyndum í framkvæmd! ;)

    ReplyDelete