Sunday, April 6, 2014

Sá Gríski


Við erum afskaplega mikið fyrir góða borgara hér á heimilinu og búum þá ávallt til úr hakki sem er beint frá býli, lang besta hakkið! Í gær bað Grímurinn minn um að við myndum hafa borgara og auðvitað urðum við við þeirri ósk hans. Ég var í miklum sumarfíling í gær því sólin skein og mennirnir mínir í garðvinnu. Borgarinn varð því að grískur. Hann var sumarlegur og fáránlega góður svo ég segi sjálf frá ... ég vildi því deila honum með ykkur. Við familían erum einnig hætt að borða franskar en í gær langaði mig þvílíkt mikið í eitthvað svipað og datt þá í hug að sætar kartöflur í staðinn ... satt best að segja slógu þær í gegn.

Kjötið í borgarann - fyrir 2

400 - 450 g hakk
1 tsk timían
2 msk fetaostur (ég notaði kryddleginn feta)
1 msk Worcestershire sauce (nota hana yfirleitt í borgarana)
salt og pipar

Blandað saman og látið bíða í 40 mín.

Grísk Tzatziki sósa með snúning

1 bolli grísk jógúrt
1 msk fersk basilíka, söxuð
1/2 tsk salt
1 pressaður hvítlauksgeiri
2 msk hvítlauksolía   (má líka vera ólífuolía en setja þá einn hvítlauksgeira í viðbót)
1 msk hvítvínsedik

Hrært saman og látið bíða svipaðan tíma og borgarana.

Grilluð papríka (sett efst á borgarann - ofan á kjötið)

1 papríka skorin í sneiðar - ca. 5 eða 6 sneiðar
 ... sett á hvolf í eldfast mót.
Hvítlauksolía yfir.

Steikt inni í ofni við 220°C og blástur þar til hýðið er farið að svertast. Takið hýðið af papríkunni þegar hún kemur út úr ofninumm.


Samsetning
Ég notaði venjuleg hamborgarabrauð og setti tzatziki sósuna á bæði brauðin. Grænmetið sem fór á borgarann var ferskt salat, lauksneiðar og tómatsneiðar. Síðan kom kjötið og grillaða papríkan þar ofan á. Þá er ekkert eftir nema lokið á borgarann.

Sætar kartöflur - fyrir 2

Ca. helmingurinn af stórri sætri kartöflu, afhýdd og skorin í þunnar sneiðar.
200 gr af kókosolíu (hægt að kaupa kubb af því frá Palmin)

Kókosolían hituð í potti og sneiðarnar steiktar upp úr henni, þerraðar og saltaðar.


Ég er komin með vatn í munninn eftir að hafa skrifað þetta niður ... þeir verða pottþétt eldaðir aftur einn góðviðrisdaginn.

Verði ykkur að góðu!
Kv. Hilja

No comments:

Post a Comment