Saturday, March 8, 2014

Æðislegir döðlurísbitar


Ég fékk einu sinni uppskrift að döðlurísbitum sem innihélt verulegt magn af sykri og smjöri. Mér og fjölskyldu minni fannst þeir svo góðir að við gátum ekki séð þá í friði og hættum að gera þá þar sem við áttum erfitt með að hemja okkur ef þeir væru til. Ég settist því niður og skrifaði nokkrar tillögur að því hvernig ég gæti gert þessa biti hollari en þeir væru og eftir nokkrar tilraunir fann ég hina fullkomnu uppskrift. Þeir eru auðvitað ekki hundrað prósent hollir en eftir breytingu er ég hætt samviskubit yfir því að stinga upp í mig mola. Það verra er að þegar ég fer með þá á samkomur fæ ég ekkert heim með mér til að stinga inn í ísskáp og stelast í þá. Hins vegar er alveg frábært að fólki finnist þeir svo góðir að það getur ekki hætt að stinga upp í sig mola og mola.

Hér kemur uppskriftin sem ég er búin að fullkomna svo að okkur líki sem best.

Döðlurísbitar

240 gr döðlur
35 g agave sýróp
80 g kókosolía
4 1/2 bolli af Rice Crispies
200 g súkkulaði (50% t.d.)  - má líka vera suðusúkkulaði.

Setjið döðlurnar, sýrópið og kókosolíuna í pott og hitið. Þegar döðlurnar fara að linast skal byrja að stappa þær og þegar þær eru orðnar að mauki skal taka pottinn af og hræra þar til olían er fullkomlega blönduð saman við.

Setja síðan Rice Crispies út í og blanda saman. Þrýstið síðan blöndunni í ca. 20 x 30 cm form og kælið. Þegar hún er fullkæld skal smyrja bráðnu súkkulaði yfir og kæla á ný. Að lokum skal skera í rísið í munnbita og njóta þeirra til fullnustu.

Verði ykkur að góðu !
Hilja

No comments:

Post a Comment