Sunday, April 5, 2015

Páskarnir, brunch og kósýheit


Hjá mér hefur verið einstaklega mikið að gera undanfarið þar sem ég ákvað að skella mér í nám til að næla mér í Mastersgráðuna í kennslu og menntunarfræðum yngri barna. Einnig varð ég formaður Menningar- og æskulýðsnefndar hér í sveit og staða mín sem móðir, eiginkona og kennari hefur ekki breyst en ennþá jafn dásamlegt!

Gulrótarkaka í páskaham!
Uppskrift má finna undir uppskriftarflipanum :)

Í dag er páskadagur og fékk ég málshátinn "Ástin er límið sem heldur heiminum saman" sem átti mjög vel við þar sem við buðum foreldrum mínum, systrum, ömmu minni og afa í brunchog því heilmikil ást komin saman undir eitt þak. Nýja vinnukona foreldra minna, hún Emma, kom einnig. Við buðum upp á lamba-carpaccio sem heppnaðist einstkalega vel. Ég er svo heppin að vera komin af bóndabýli og því hæg heimatökin. Ég greip mér hrygg úr frystinum og úrbeinaði hann svo að ég var að enda komin með tvær fallegar fillet í hendurnar. Ég fann fína uppskrift að lamba-carpaccio í Gestgjafanum en hef útfært réttin aðeins þannig að ég fái meira bragð í kjötið.

Lamba - carpaccio

400 g lambafillet
1 msk sítrónusafi
1 1/2 tsk dijon sinnep
1 tsk pipar (helst nýmalaður)
1 tsk salt
1 - 2 hvítlauksgeirar, pressaðir
2 dl fínt saxað klettakál
nokkrar timian greinar

Blandið öllu saman nema timianinu. Setjið blönduna utan um kjötið, leggið timian greinar yfir og vefjið plastfilmu utan um það. Frystið kjötið.

Skerið kjötið hálffrosið niður í þunnar sneiðar en ekki bera það samt fram frosið.
Það er best nær þiðið.

Berið fram með klettakáli, parmesan, snittubrauði og granatdressingu.


Ég var einnig með krúttlegan og gómsætan hindberja smárétt sem er einstaklega einfaldur í gerð og tilvalinn fyrir hvaða tilefni sem er. Móðir mín kolféll fyrir þessum tveimur réttum, hún er ekki mikið fyrir kökur og eftirrétti en kjöt og allt það sem inniheldur samanstendur af yfir 50% osti er það sem nær henni. Ég ákvað að skella inn þessum tveimur réttum þar sem að ást mömmu hefur haldið heiminum mínum saman einstaklega oft!

Hindber á ostabeði með balsamik sýrópi

1 dl gott balsamik edik
4 1/2 msk sykur
1/2 tsk sítrónusafi

Hitið upp þar til sykur er uppleystur. Sjóðið þá niður þar til um 3/4 dl eru eftir. Kælið niður.

2,5 dl mascarpone ostur
1,5 dl rjómi
1/2 tsk vanilludropar
2 msk sykur
fersk hindber
hindberjasulta

Hærið mascarpone ostinn örlítið upp. Bætið síðan við rjómanum, vanillunni og sykrinu og hrærið þar til það er farið að toppa aðeins og orðið fallega samfellt. Kælið í 2-4 tíma.

Setjið síðan hálfa teskeið af hindberjasultu í hvert staupglas, eina kúfaða teskeið af mascarpone blöndunni, setjið síðan eitt hindber ofan á og smá balsamik edik yfir.

Uppskriftin dugir í um 20-25 staup. 
Það er alltaf svo gaman að hittast og eiga notalega stund saman. Í eldhúsinu líður mér best og eftir stressmiklar vikur og mikið álag var æðislegt að geta eytt svona miklum tíma í eldhúsinu til að undirbúa þennan brunch. Nú finnst mér ég vera komin í gírinn og fera bara að undirbúa næsta brunch, það þarf ekki alltaf tilefni til að hittast, bara góðan félagsskap og frábær matur skemmir ekki fyrir !


No comments:

Post a Comment