Monday, August 5, 2013

Hjörtun farin að flæða ...


Hef svo oft séð svona hjörtu út um allt, búðum, vefsíðum og heima hjá fólki. Mig hefur því lengi langað til að gera slík hjörtu til að hafa hérna hangandi heima hjá okkur.

Ég fann svo loks hið fullkomna efni, þykkt og sterkt og í litnum sem ég var að sækjast eftir. Það tók mig nokkrar tilraunir að ná því útliti á hjörtunum sem mig langaði í en að lokum fékk ég þá útkomu sem ég sóttist í.

Hér má sjá tvö af þeim hjörtum sem urðu til við tilraunastarfsemina.

Síðan er það helst að frétta að ég útbjó síðu á Facebook þar sem munir héðan af síðunni verða til sölu og þar á meðal þessi hjörtu. Síðuna má finna hér:  https://www.facebook.com/hiljainspires. Ég get ómögulega setið uppi með allt sem ég geri, það er farið að flæða út úr skápunum hjá mér.


Hér fyrir neðan er hugmyndin sem ég fékk með hjörtun, með þeim sem ég setti á sölusíðuna. Elska þessi hjörtu.



Friday, July 19, 2013

Verslun sumarsins

Verð bara að deila með ykkur blómabúð sem að ég elska að fara inn í. Það eru svo margir fallegir hlutir þarna inni og ef maður lætur gera blómaskreytingu fyrir sig að þá klikkar hún aldrei.

Já, svo að það komi nú fram fyrir þá sem vilja vita að þá er ég að tala um Sjafnarblóm. Ég varð algjörlega heilluð af þessari bláu könnu og bollum, hversu falleg getur ein kanna eiginlega verið.

Ég stökk þarna inn þegar við familían vorum á leið í brúðkaupsveislu á systur mannsins míns og ég var ekki lengi að finna þennan fallega disk og yndislegu smáfugla. Ég setti þetta upp eins og ég vildi hafa allt saman og útskýrði hvernig blómaskreytingu ég vildi fá og viti menn, þegar konan kom til baka varð ég hugfangin af sköpunarverkinu. Ég gekk út eitt stórt bros yfir fullkominni þjónustu og gullfallegri gjöf sem myndi brátt fá nýja eigendur.

Wednesday, July 10, 2013

Listin að kunna að slaka á ....

Sumarfrí fer mér ekki vel, ég iða í skinninu af löngun til að gera eitthvað. Ég er með mörg verkefni í gangi og það stærsta eru líklega jólagjafirnar. Já, þið lásuð rétt jólagjafirnar og ekki seinna vænna, aðeins rétt rúmlega 5 mánuðir í jólin. Ég hef sjaldan verið eins sein og núna. Set hérna mynd af einum hlut sem er partur af hugmynd ... segi ekki meira :) En eldri sonurinn teiknaði þetta á bolla fyrir pabba sinn með þar til gerðum postulínspenna (keyptum í Litir og föndur). Pabbinn auðvitað alsæll með kaffibollann sinn og ég er ekki frá því að það gæti fyrir smá öfund af minni hálfu gagnvart honum.

En ég er að vinna í því að gera lista og hugmyndir yfir gjafir til að gera sjálfur. Mér finnst það persónulega mun skemmtilegri jólagjafir. Ég set þetta inn í hollum og ég vonast til þess að fyrsti hluti líti dagsins ljós fyrir lok júlí. En það eru vonir og væntingar, sjáum til hvort það gangi eftir.

Vildi líka deila með ykkur þessari síðu Card making and paper craft . Ég er algjörlega sokkin ofan í hana, ekki af því að ég er mikið í því að gera kort heldur möguleikana sem þessi síður býður upp á til að skapa eitthvað algjörlega nýtt. Ef þið eruð heppin deili ég kannski með ykkur nokkrum hugmyndum og útfærslum bráðlega. En það er verkefni 2 sem ég er með í gangi. 

3 verkefnið sem ég er með er að sauma mér flík, ég setti það á sumarlistann (sjá hér)og ætla mér að standa við það enda eitt af því sem mig langaði mikið til að gera áður en vinna hefst á ný.

Spurning um að fá sér einn vænan bolla af kaffi og þykjast slaka á....................

Thursday, June 27, 2013

Ódýr og falleg hirsla til að gera heima

Mig vantar alltaf eitthverja kassa til þess að geyma smáhluti í, t.d. hárdótið eða hárvörurnar ... snyrtidótið jafnvel. En mér finnst fallegar hirslur vera svo dýrar. Ég datt niður á þetta fallega veggfóður á lagersölu sem er staðsett á Kauptúni, rúllan kostaði einungis 1500 krónur. Eftir að hafa keyrt í eftirvæntingu með það heim greip ég kassa utan af dóti sem Kári minn fékk í afmælisgjöf, skar lokið af því og límdi veggfóðrið á hann með ModPodge (fæst í föndurbúðinni í Holtagörðum t.d.). Núna prýðir hann baðherbergishilluna og geymir fyrir mig teygjur og spennur. Er mjög ánægð með hann. 

Endilega farið inn í færsluna til að sjá myndirnar og hvernig ég gerði kassann. 

Thursday, June 20, 2013

Með bros á vör og kamb í hári tek ég nú sumrinu mót


 Er búin að vera að leika mér að gera kamba undanfarið ... hér er t.d. einn af þeim. Síðan er spurningin hvað á maður að gera síðan við alla þessa kamba sem eru farnir að safnast upp í skáp ....

Var fengin til að gera blómaskreytingu úr blómum úr íslenskri náttúru um daginn og er nokkuð ánægð með árangurinn. Kökustandurinn er í minni eigu, hannaður af mér en smíðaður af góðvini mínum Frey Geirdal (og ég er honum óendanlega þakklát!)

 Og í tilefni þess að í dag varð ég árinu eldri ætla ég að skella líka einni mynd með af augasteinunum mínum. Ég elska þá svo heitt og innilega. Þó að veikindi hafi hamlað grósku tilfinninga gagnvart þeim yngri að þá sé ég ekki sólina fyrir honum í dag ... eitt ár getur breytt mörgu, vægast sagt.

Vona að þið séuð að njóta sumarsins og gera það sem gerir sumarið eftirminnilegt og einstakt. Fyrir okkar leiti að þá erum við búin að krossa við fjögur atriði á sumarlistanum okkar ... og eftir helgina getum við krossað við enn fleiri atriði .... það er svo gaman að merkja við!!!!


Kveð ykkur í bili, Hilja

Thursday, June 13, 2013

Einmanalegu servíetturnar

Hver kannast ekki við að eiga heilan helling af servíettum inni í skáp hjá sér, eitt eða tvö stykki af hverri tegund. Ég er búin að horfa þó nokkuð á nokkrar servíettur hjá mér og hugsað með mér hvað ég gæti gert við þær. Ég gæti alveg notað þær í veislu, enginn með eins servíettu, en ég á ekki nóg af servíettum í þess konar aðferð.

Manni mínum til mikillar "ánægju" sanka ég að mér alls kyns dollum, dósum og kössum. Þar á meðal átti ég þrjár dollur utan af camembert osti. Ég tók þar fram ásamt pensli fyrir lím og Mod Podge (fæst t.d. í föndurbúðinni í Holtagörðum ... sem er meðal annars draumaveröldin mín). Tók servíetturnar í sundur en hver servíetta er oft gerð úr tveimur eða þremur lögum að pappír. Ég byrjað á að nota innsta lagið sem er yfirleitt litlaust og notað það sem fyrstu umferð á dolluna, síðan tók ég mið-pappírinn og límdi hann á og að lokum ysta lagið sem er þá með mynstrinu á.

Leyfi þessu að þorna og voilá, þá verður til þessi fallega askja. Vel hægt að nota hana til að geyma eitthvert smádót á heimilinu eða sem gjafaösku. Þannig að núna verður camembert ostur í matinn á hverju kvöldi hjá okkur .... :)

Kv. Hilja

Tuesday, June 11, 2013

Bláu augun þín, blika djúp og skær ...


Ég fékk senda þessa gullfallegu mynd frá Vilborgu Maríu Ástráðsdóttur sem hún tók af yngsta stráknum okkar. Mig langaði að gera eitthvað við hana og svo vel vildi til að ég átti blindramma inni í föndurskáp.

Ég prentaði myndina út í lit, bar Mod Podge á blindrammann, skellti myndinni á hann og slétti vel úr henni. Síðan fann ég mér gamalt dagblað og leitaði sérstaklega eftir bláum blaðsíðum og tók sömuleiðis nokkra textabúta. Ég reif þetta niður og límdi svo á rammann til þess að ramma myndina inn.

Ég er svo ánægð með útkomuna, finnst myndin fá að njóta sín og bláu blaðabútarnir ýta enn undir þennan himinbláa augnlit sonarins.