Saturday, March 8, 2014

Æðislegir döðlurísbitar


Ég fékk einu sinni uppskrift að döðlurísbitum sem innihélt verulegt magn af sykri og smjöri. Mér og fjölskyldu minni fannst þeir svo góðir að við gátum ekki séð þá í friði og hættum að gera þá þar sem við áttum erfitt með að hemja okkur ef þeir væru til. Ég settist því niður og skrifaði nokkrar tillögur að því hvernig ég gæti gert þessa biti hollari en þeir væru og eftir nokkrar tilraunir fann ég hina fullkomnu uppskrift. Þeir eru auðvitað ekki hundrað prósent hollir en eftir breytingu er ég hætt samviskubit yfir því að stinga upp í mig mola. Það verra er að þegar ég fer með þá á samkomur fæ ég ekkert heim með mér til að stinga inn í ísskáp og stelast í þá. Hins vegar er alveg frábært að fólki finnist þeir svo góðir að það getur ekki hætt að stinga upp í sig mola og mola.

Hér kemur uppskriftin sem ég er búin að fullkomna svo að okkur líki sem best.

Döðlurísbitar

240 gr döðlur
35 g agave sýróp
80 g kókosolía
4 1/2 bolli af Rice Crispies
200 g súkkulaði (50% t.d.)  - má líka vera suðusúkkulaði.

Setjið döðlurnar, sýrópið og kókosolíuna í pott og hitið. Þegar döðlurnar fara að linast skal byrja að stappa þær og þegar þær eru orðnar að mauki skal taka pottinn af og hræra þar til olían er fullkomlega blönduð saman við.

Setja síðan Rice Crispies út í og blanda saman. Þrýstið síðan blöndunni í ca. 20 x 30 cm form og kælið. Þegar hún er fullkæld skal smyrja bráðnu súkkulaði yfir og kæla á ný. Að lokum skal skera í rísið í munnbita og njóta þeirra til fullnustu.

Verði ykkur að góðu !
Hilja

Monday, February 24, 2014

Tvær fljótlegar


PABBABRAUÐSTANGIR


 Maðurinn minn kom með þessar brauðstangir á borðið einn daginn. Eldri drengnum finnst brauðstangir æðislegar og kolféll líka fyrir þessum.

Byrjað er á því að taka tvær brauðsneiðar og krydda aðra með Roasted garlic and pepper kryddinu sem fæst t.d. í Bónus. Síðan setja ost yfir, krydda aftur og setja seinni brauðsneiðina ofan á. Smyrja samlokuna að utan með íslensku smjöri og setja í grill. Þegar samlokan fer að verða tilbúin skal skera hana í ræmur og snúa sárinu upp og grill þannig ostinn. Um að gera að prófa líka hvítlaukskrydd og pipar saman.


BLÓMKÁLS OG PÚRRULAUKSGRATÍN

Þetta gratín er svo ofur einfalt og fljótlegt að það er eiginlega hlægilegt. Þetta kom til þegar ég átti blómkálshaus sem var að skemmast og bara hálftími í kvöldmat. Þá voru góð ráð dýr ... eða kannski ekkert svo dýr, meira kostnaður við mjólk, púrrulaukssúpu og blómkálshaus.

1 blómkálshaus
1 púrrulaukssúpa
3 dl mjólk eða 2 dl mjólk og 1 dl rjómi
1 msk af rjómaosti skemmir ekki fyrir :)
Ostur ofan á.

Eldaði púrrulaukssúpuna með einungis 2 dl af mjólk og einum af rjóma. Skellti einnig með 1 msk af rjómaosti. Á meðan súpan var að hitna brytjaði ég blómkálið niður í litla munnbita og skar einnig smá af púrrulauk til að hafa með, sirka 2 msk af púrrulauk. Setti blómkálið í eldfast mót, súpuna yfir þegar hún var búin að þykkna og ost ofan á allt heila klabbið. Inn í ofn í 15-20 mín eða þar til osturinn var farinn að brúnast.

Þetta gratín var óheyrilega gott. Hafði með heilveitispaghettí og ferkst grænmeti. Maðurinn minn sem er orðabókaskilgreiningin fyrir óða kjötætu var alsæll með þennan rétt, sem segir mér að þettta var í raun og veru gott, það var ekki bara ég.

Sunday, January 26, 2014

Mexikanskur hamborgari með öðruvísi sveiflu

Bjó til þennan yndislega góða og djúsí hamborgara fyrir okkur hjónakornin um daginn og hann rann svoooo vel niður.

Vildi því deila með ykkur uppskriftinni af þeim.

Mexíkanskur borgari

400 gr nautahakk (ég nota alltaf beint frá býli)
3-5 msk Sweet Chili
1 dl mexíkanskur ostur

Blandað saman og búnir til tveir borgarar. Steiktir og þegar þeim er snúið við er skellt nóg af ostsneiðum til að þekja þann velilmandi :)

Á meðan borgarnarnir eru í steikingu er um að gera sósuna og hún heitir :

Grísk taco sósa

3 msk taco sósa (af þeim styrkleika sem þið viljið ... ég með minn viðkvæma maga nota Mild)
4 kúfaðar msk grísk jógurt

Þessu er hrært saman og þá verður hin undursamlega sósa til.

Síðan er bara að púsla borgurunum saman :

hamborgarabrauð (sem ég set í ristavélin)
sósa
grænmeti að eigin vali
borgari
sósa
hamborgarabrauð

Þar sem við höfum hætt því að borða franskar fáum við okkur salat til hliðar :)

Verði ykkur að góðu ... því þeir eru svakalega góðir svo ég segi sjálf frá.

Knús og kram, Hilja.

Friday, January 3, 2014

Nýtt ár - fersk byrjun

Ég tók mér algjört frí frá skrifum í desember enda nóg að gera í vinnu og undirbúningi fyrir jól. Þetta var yndislegur tími með fjölskyldunni og gaman að vinna að því saman að gera jólagjafir fyrir nákomna ættingja, þá helst afa og ömmur. Það er árlegt hjá okkur að gera dagatal fyrir ömmur og afa með myndum af okkur yfir árið sem senn myndi líða undir lok, við það nýti ég Publisher og sendi síðan á prentsmiðju sem prentar út, gormar og gerir naglagat eða hengi fyrir nagla. Þetta nýtur ávallt jafn mikillar hylli.

Aukalega gerði sonur minn bolla fyrir ömmu og afa líkan þessum hér til hliðar sem hann gerði reyndar fyrir pabba sinn í sumar. Núna er drukkið úr nýju bollunum á hverjum morgni og mikil sæla hjá ömmunni og afanum (eða öfunum því tengdapabbi og maður mömmu minnar fengu bolla og mamma mín).

Hann gerði síðan viskastykki fyrir aðra ömmu og afa (pabba minn og konuna hans). Það má sjá hér. Hann teiknaði okkur fjölskylduna. Myndina teiknaði Grímurinn minn á blað og ég tók upp í gegn með textíl penna sem fæst í A4 t.d. Viskastykkið keypti ég í Ikea.



Að lokum langar mig að sýna ykkur púðana sem ég gerði fyrir systur mannsins míns og konuna hennar en þær giftu sig í haust. Ég sá að hluta til um skreytingar veislunnar og þurfti að hylja íþróttafélagsmerki með hvítu þykku efni. Það nýtti ég síðan í það að gera púða og tók um leið nokkur af þeim heilræðum eða skilaboðum sem þær fengu og málaði það á púðana. Ég er mjög ánægð með útkomuna og vonandi eru þær bara jafn ánægðar, mér heyrist það alla vega á þeim. :)

 Gleðilegt nýtt ár og takk fyrir samfylgdina á síðasta ári :) Hlakka til að gera nýja hluti á nýju ári og deila með ykkur.

Sunday, November 17, 2013

Halda skal hvíldardaginn heilagann

Rauk upp á heilsugæslu með yngri soninn um miðnætti vegna öndunarerfiðleika og þar sem sá eldri er með hósta og kvef og ég í sama pakka er innivera málið í dag. Fyrir liggur kósý tími yfir góðri teiknimynd og föndra jólagjafir hjá þeim eldri. Um að gera að reyna sitt allra besta til að gera gott úr ástandinu því úti er nýfallinn sléttur snjór og trén bæra ekki á sér eða eins og Grímurinn minn segir "Þau dansa ekki í dag mamma". Semsagt hið fullkomna veður til að leika sér úti í snjónum.


Vildi óska þess að þetta væri í ofninum akkúrat núna. Lambalæri fyllt með basilíku og hvítlauk (gerði skurði og stakk ofan í). Við fengum okkur það síðustu helgi og buðum bróður mínum í mat. Þetta var tryllingslega gott, borið fram með smjörsteiktum kartöflum og rjómalagaðri sveppasósu. Ætli maður verði ekki aðeins að draga úr kröfunum þegar veikindi ber að garði ...


Knús og kram, Hilja


Thursday, November 7, 2013

Rifsberjaísinn ... !









Langaði til að deila með ykkur þessari brjálæðislegu góðu uppskrift að rifsberjaís. Hann er nauðsynlegt "meðlæti" með frönsku súkkulaðikökunni á þessu heimili enda er það fullkomin tvenna!

Here below is the recipe for redcurrant icecream in English.



Sunday, November 3, 2013

Úr bók má mat gera ...

Þessi bók er í uppáhaldi hjá mér. Ég fékk hana í jólagjöf frá strákunum mínum og er mikið búin að skoða hana, prófa uppskriftir og útfæra á minn hátt því eins og þeir sem eru nákomnir mér vita að þá á ég mjög erfitt með að fara eftir uppskrift. Sem er kannski bara góðs viti því að maður á að laga uppskriftirnar að sínum þörfum, bragðlaukum og vilja. Engin uppskrift er heilög. Það er líka skemmtilegt að hafa einn dag í viku þar sem er prófað eitthvað algjörlega nýtt. Við höfum haft tilraunalaugardaga þegar færi hefur gefist og okkur finnst alveg afskaplega skemmtilegt að upplifa nýja matargerð. Stundum liggjum við á meltunni á eftir, í önnur skipti er hafður eftirréttur til að fylla upp í magann.

Ég setti hérna inn um daginn uppskrift af beikonvöfðum kjúklingi. Ég átti smá afgang af kjúklingakótelettenum sem ég gerði fyrir strákana (á meðan við hjónin fengum unaðskjúklinginn ... ) og helling af hrísgrjónum. Ég var síðan að glugga í þessa bók og rakst á rísottó á meðan ég var að hugleiða hvað ég ætti að hafa í kvöldmatinn. Ég ákvað því að nota afganginn síðan kvöldið áður og bjó til rísottó úr hrísgrjónunum, kjúklingnum, afgangsbeikoninu, afgangs gráðuostinum og bætti við rauðlauki. Mér finnst svo gaman að gera góðan afgangsrétt og þessi réttur var ekkert mikið síðri en upphaflegi rétturinn. Með réttinum fékk síðan að fylgja hvítlaukssósan frá kvöldinu áður og salat.

Bon appetit :)

Knús og kram, Hilja