Thursday, May 24, 2012

Auglýstu fjölskylduna

Ég hef alltaf verið hrifin af því þegar fólk setur margar myndir saman í ramma og lýsir þannig eitthverri sögu úr fjölskyldunni.

Okkur langaði að gera eitthvað svipað á sínum tíma en vildum ekki vera með venjulegan myndaramma og troða í hann myndum eða líma myndirnar handahófskennt á vegginn því þannig gæti komið fita og ryk á myndirnar sem myndi skemma þær.

Einn daginn kom Bjössi hins vegar heim með auglýsingastand og spurði hvort að hann myndi ekki ganga upp. Ég byrjaði að raða í hann og hér til hliðar má sjá afraksturinn. Reyndar eru myndirnar frá sumri og hausti 2009 þannig að það fer að koma tími á endurnýjun.

Okkur finnst alltaf jafn gaman þegar fólk staldrar við standinn og skoðar myndirnar. Sonurinn getur einnig eytt dágóðum tíma fyrir framan standinn og skoðað myndirnar, spáð og spekúlerað.

Tuesday, May 22, 2012

Pláss fyrir póstinn

Hingað til hefur pósturinn yfirleitt lent á borðinu, safnast saman þar og þegar komin er góð og myndarleg hrúga finn ég mig knúna til að taka upp möppuna og ganga frá.

Auðvitað væri það lang gáfulegast að ganga strax frá póstinum en stunudum eru bara þarfari hlutir sem bíða, eða svo segi ég sjálfri mér.

Hér er hins vegar búið að búa til ótrúlega snyrtilegt og fallegt hólf fyrir póst, bæði sem þarf að fara í póst og er að koma inn úr póstkassanum.

Spurning um að skella í einn svona þegar tími vinnst til. Ef þig langar til að gera póstvasana þá má finna leiðbeiningarnar HÉR.

Saturday, May 19, 2012

Stefnumótakassinn


Rakst á þessa skemmtilegu hugmynd á Silly Pearl. Er ekki um að gera að gera sér einn svona kassa og þegar maður er algjörlega hugmyndasnauður um hvað skuli gera að opna þá kassann og taka upp einn bitann. 

Ég hef alltaf gaman af eitthverju óvæntu, finnst gaman að láta koma mér á óvart og mér finnst eins og þetta sé eins nálægt því og hægt er að komast að koma sér sjálfum á óvart ... 

Hægt er að útbúa þennan kassa sjálfur og leiðbeiningarnar er að finna á síðu Silly Pearl. Þær má finna HÉR.

Sunday, May 13, 2012

Sagan af bolnum sem varð að poka

Alltaf má finna leiðir til að nýta gamla bolinn. Hér hefur bol verið breytt í bakpoka sem einnig má nýta sem hliðartösku.

Þetta er mjög einföld breyting og auðvelt fyrir hvern sem er að gera þetta. Sérstaklega þar sem leiðbeiningarnar eru settar upp í myndformi til að auðvelda skilning lesandanna á framkvæmd verksins. Er þetta ekki bara ekta poki fyrir sumarið til að geyma sólarvörnina og sundfötin???

Þetta má finna hjá Tali á Growing Up Creative, leiðbeiningarnar má finna HÉR.

Saturday, May 12, 2012

Gamla góða puttaprjónið ?

Þegar ég var yngri þá puttaprjónaði ég þessi ósköp af endalausum mjóu lengjum sem maður þóttist geta nýt sem trefla, hálf nöturlegir treflar svo ég segi sjálf frá. Um daginn rakst ég á hugmynd sem var inni á Design Sponge þar sem að puttaprjón var nýtt í að gera röndótta púða. Ég ákvað þá að prófa að puttaprjóna aftur og nýta lengjurnar í það að gera eitthvað á púða.

Litlir kassar ...






Mér hefur alltaf fundist mandarínukassarnir svo sætir og oft viljað gera eitthvað úr þeim.





Hér má sjá einn kassann (Robin mandarínukassi) sem ég tók í yfirhalningu. Ég reif alla miða af og lakkaði hann hvítan, þurfti tvær umferðir til. Síðan lagði ég botninn ofan á gjafapappír (með innri hliðina upp) og dró útlínurnar á kassanum á gjafapappírinn. Klippti síðan eftir teikningunni og setti svo pappírinn í botninn á kassanum.


Lítið mál er síðan að skipta um útlit og finna sér nýjan gjafapappír til að setja í. Ég hef einnig stundum tekið gjafapappírinn úr og notað kassann sem brauðkassa undir snittubrauð í veislum.

Að skapa sitt eigið


Ég hef lengi gengið með hugmyndina að þessari tösku og byrjaði á henni fyrir nokkrum árum. Síðan tók námið við, barneignir og vinna. En loksins hefur mér gefist nægur tími til að setjast við saumavélina og sauma hitt og þetta, líkt og sést best hér á blogginu.





Í gær tók ég svo upp efnið og bútana sem þegar höfðu verið klipptir og byrjaði að sauma. Í kvöld gat ég síðan lokið verkinu. Það er alltaf jafn gaman að geta komið frá sér nokkurra ára gamalli hugmynd og ennþá betra þegar maður er ánægður með útkomuna.

Hönnun og framkvæmd er að öllu mín.