Kjúklingarisottó
2 skallottulaukar
3 hvítlauksgeirar
6 msk smjör
1 l kjúklingasoð
afgangskjúklingur skorinn í bita
1 dl villisveppir
3 dl hrísgrjón
5 sveppir (hvítir eða kantarellu)
2 dl rjómi
2 dl parmesan, rifinn
1/2 villisveppaostur, rifinn
1 msk timían
1 msk steinselja
Salt og pipar
Ég nota stóra stálpönnu til að gera risottóin mín, mér finnst hún þægilegust í það hlutverk.
Setjið villisveppina í kalt vatn og skolið þá örlítið, setjið þá síðan í skál með köldu vatni sem flýtur aðeins yfir og leyfið þeim að mýkjast. Steikið skallottulaukana og hvítlauksgeirana í smjörinu þar til glærir. Á meðan skal hita upp einn líter af soði og setja kjúklingabitana út í það. Þegar laukarnir eru orðnir glærleitir skal setja hrísgrjónin út í og hita þau aðeins. Setjið hvítu sveppina um leið út í og hrísgrjónin. Þegar hrísgrjónin hafa hitnað skal setja 1/4 af soðinu út í. Bætið allt smá og smá af soðinu út í þegar hrísgrjónin eru við það að klára að draga í sig frá síðasta skammti. Rétt áður en settur er síðasti skammturinn af soðinu skal hella vökvanum af villisveppunum út í risottóið, saxa sveppina og setja þá út í. Þegar síðasti hlutinn af soðinu er að verða búinn á pönnunni skal bæta út í rjómanum, parmesan ostinum, villisveppaostinum og kryddinu. Saltið og piprið eftir smekk. Hrærið þar til risottóið er þykkt og kremað, þá er það tilbúið.
Ég bar risottóið fram með fersku salati, ristuðu hvítlauksbrauði og gljáðu graskeri (grasker sem heitir "butternut squash" á ensku).
Gljáð grasker
700 g grasker skorið í ferninga
60 g smjör
50 g púðursykur
1 1/2 tsk salt
1 1/2 tsk pipar
Bræðið smjörið og hrærið við það púðursykur, salt og pipar. Veltið graskersferningunum upp úr því, setjið í ofnfast mót eða skúffu og steikið inni í ofni í 30 mínútur við 180 °C. Hrærið graskerið reglulega upp svo að það steikist jafnt.
Hlakka til að deila hinni uppskriftinni með ykkur á morgun :)
No comments:
Post a Comment