Friday, March 22, 2013

Dýrmætu minningarnar

 Nú er komið páskafrí hjá krökkunum og í sumum tilfellum þarf að hafa ofan af fyrir þeim.

Ég ásamt samkennurum mínum erum búin að vera að vinna með hafið og dýrin þar undanfarnar vikur. Hægt er að heimfæra þessar hugmyndir heim, t.d. teikna og lita sjávardýr á blöð, mála annað blað blátt og klippa síðan dýrin og líma á bláa blaðið.

 Einnig er hægt að taka pappadiska frá síðasta sumri, teikna á þá andlit og hengja mislita pappírsstrimla á þá líkt og á myndinni hér við hliðin á. Þar er notaður tissue pappír sem armana. Þá fær barnið þessa flottu marglyttu sem er flott að hengja upp í loftið. Í skólanum fengum við alls konar marglyttur, trúðamarglyttu, strákamarglyttu, stelpu- og prinsessumarglyttur. Mikið augnayndi í stofunni hjá okkur.


Síðan er alltaf gaman í eldhúsinu. Hér er verið að gera múffur í öllum regnbogans litum og samkvæmt drengnum mínum var mjög mikilvægt hvernig samsetningin í formunum var, mikil vísindi þar.

En allt þetta skapar yndislegar minningar og góðan dag með barninu. Ég á mínar eigin minningar frá barnæskunni þar sem að mamma mín var að föndra með mér, baka og bjóða mér í "kaffi" með "barnið" mitt. Þessar minningar eru mér mjög dýrmætar og ég reyni mitt ítrasta til að endurskapa þær með mínum börnum.

Thursday, March 21, 2013

Yfirhalning að hætti Kalla Berndsen



Ég er búin að horfa á þessu ljótu töflu í mörg ár, loksins lét ég verða að því að "pimpa" hana upp. Er súper ánægð með útkomuna.

Ég hvítlakkaði tréð og límdi efnið svo á með Modpodge, enginn saumaskapur svo að þetta ætti hver sem er að geta ef þeir luma á einhverjum svona töflum. Efnið keypti ég í Ikea á sínum tíma, fremur þykkt svo að rauði liturinn sem er á töflunni kemur ekki í gegn.
Fallegur blár borði fékk svo það hlutverk að halda töflunni uppi. 

Friday, March 15, 2013

MMMMMmmmm þetta líkar mér ....

Mér finnst ekkert jafn gaman og að dunda mér í eldhúsinu við að skapa góðan mat. Skemmtilegast er ef hann er litríkur því að það er aldrei of lítið af lit í lífinu. Eftir erfiðan dag er yndislegt að geta slakað á í eldhúsinu og afraksturinn oft á tíðum unaðslegur svo ég segi sjálf frá. Mig langaði að deila hér með ykkur einni af þeim afurðum sem hafa orðið til við þessar aðstæður. Þessi réttur er skammtaður fyrir einn.

Monday, March 11, 2013

Nýtt ár - nýtt upphaf

Jæja, loksins loksins sest ég aftur við tölvuna og hef mig til að skrifa færslu. Ég á orðið svo mikið af uppsöfnuðu efni að ég verð að fara að koma því frá mér! 

En eins og sumir vita öftruðu persónulegar ástæður mér frá því að sinna þessu en nú skal sko tekið til hendinni og haldið áfram. 

Upphafsfærslu ársins hlýtur Ikea borðlampinn GRÖNÖ. Ég átti einn slíkann hér heimafyrir og vissi ekkert hvað ég átti að gera við hann. Síðan rakst ég á föndurpappír í Söstrene Gröne og datt í hug að setja hann utan um lampann og nota sem náttborðslampa. Hann kom svo vel út að ég keypti annan lampa til að við hjónin gætum haft eins borðlampa. 


Ég er mikið búin að leita að borðlömpum sem ég er ánægð með og svo kom í ljós að þeir lampar sem ég er ánægðust með voru líka þeir ódýrustu. 

Bjössa datt svo í hug að festa rofann aftan á náttborðið svo maður þyrfti ekki að vera stöðugt að leita að honum. Rofinn er festur með tvöföldu teipi. 

Er þetta ekki bara ágætis upphaf á árinu?
 

Friday, December 14, 2012

Fallegt og persónulegt jólaskraut

Nú þegar jólin nálgast óðum og börnin fara í jólafrí, helgarnar koma ein af annarri og kertaljósin tendruð er um að gera að setjast niður öll saman og föndra. Það þarf ekki að vera dýrt og ekki heldur mikið. Aðaltilgangurinn er að eiga saman notalega fjölskyldustund og ekki skemmir það fyrir að eignast fallegt og persónulegt jólaskraut í leiðinni. Rakst hér á röð myndbanda þar sem farið er yfir nokkrar hugmyndir að jólaskrauti. Virkilega skemmtilegar og fallegar hugmyndir. Endilega skoðið myndböndin hér að neðan.

Thursday, December 13, 2012

Að hanga á stígvélunum

Hef oft átt í vandræðum með stígvélin mín, þau hafa einhvern vegin alltaf verið fyrir, ekki getað staðið upprétt og hálarnir dottið í gegnum götin á skóhillunni. Síðan datt mér þetta í hug...er nokkuð sátt, enda loksins laus við ringulreiðina.

Sunday, November 11, 2012

Meira fyrir minna ... í peningum og kaloríum

Eftir að ég átti seinni strákinn minn ákváðum við hjónakornin að taka matarræðið okkar í gegn. Við viljum bjóða börnum okkar upp á hollan og góðan mat, helst sem má borða eins mikið af og hægt er. Við erum ekki efnamikil og þar sem hollar vörur kosta oft dágóðan pening verður maður að reyna að gera sem best úr sem minnstu. Ég ætla hér að deila með ykkur tveimur aðalréttum og einum eftirrétti (sem virkar líka vel í kaffinu), sem voru aðeins gerðir fyrir einn þannig að auðvelt er að margfalda upp í þann fjölda sem óskað er.

Ég elska eplapæið mitt út í hið endalausa og get ekki fengið nóg af því. Með hina réttina þarf ég einungis að breyta kryddunum aðeins og ég get borðað mig vel sadda með góðri samvisku.