Thursday, July 17, 2014

Kjúklingur þrisvar sinnum, annar hluti


Þá er komið að seinni réttinum sem var í raun afgangsréttur af afgangsréttinum, þeim sem ég deildi með ykkur í gær.

Ég geri það alltaf við brauð, sem að ég hef bakað sem er orðið hart, að skella því í matvinnsluvélina og rífa það niður í öreindir. Síðan sting ég því í frystinn til að bíða þess tíma þegar ég þarf að raspa eitthvað. Þetta er lang besta raspið og mér dettur í hug að kaupa rasp út í búð eftir að ég tók upp á þessu. Þetta rasp kom sér líka vel við gerð þessa rétts.

Rísottó buff

Afgangur af kjúlkingarísottóinu.
100 g beikon (má auðvitað vera meira fyrir beikonunnendur).
Egg, pískað og kryddað með salti og pipar
Rasp

Steikja beikonið á pönnu þar til það er rétt að verða stökkt, saxið það niður í bita. Hafið rísottóið í skál og blandið beikoninu við og hrærið því vel saman við. Búið síðan til lófarstór buff, veltið því upp úr egginu, því næst raspinum og steikið á pönnunni sem beikonið var steikt á (en verið búin að hella fitunni af).

Ég bar buffið fram með afgangnum af graskerinu frá kvöldinu áður og hvítlaukssósu úr grískri jógúrt (3 kúfaðar msk grísk jógúrt, 2 hvítlauksgeirar, 1 tsk hvítlauksedik, salt og pipar og þynnt út í ásættanlega þykkt með vatni). Við erum voðalega hrifin af þessari hvítlaukssósu okkar.

Þetta má auðvitað gera við öll rísottó sem gerð eru og alltaf hægt að leika sér að því að bæta út í þau.

Wednesday, July 16, 2014

Kjúklingur þrisvar sinnum, fyrri hluti

Eins og kom fram um daginn að þá er ég með "ofnæmi" fyrir því að henda mat. Ég eldaði eitt sunnudagskvöldið fyrir okkur heilan kjúkling og var með mikið meðlæti með. Af þeim sökum var helmingurinn af kjúklingnum eftir. Sá helmingur dugði í tvo aðra rétti sem ég ætla að deila með ykkur. Hér má sjá fyrri réttinn, sá seinni kemur á morgun en hann er eiginlega afgangsmatur af afgangsmatnum. Þetta er ef til vill skrítið áhugamál, þ.e. að fá einstaka ánægju af því að gera afgangsmat en launin eru verulega góð á bragðið.

Kjúklingarisottó

2 skallottulaukar
3 hvítlauksgeirar
6 msk smjör
1 l kjúklingasoð
afgangskjúklingur skorinn í bita
1 dl villisveppir
3 dl hrísgrjón
5 sveppir (hvítir eða kantarellu)
2 dl rjómi
2 dl parmesan, rifinn
1/2 villisveppaostur, rifinn
1 msk timían
1 msk steinselja
Salt og pipar

Ég nota stóra stálpönnu til að gera risottóin mín, mér finnst hún þægilegust í það hlutverk.

Setjið villisveppina í kalt vatn og skolið þá örlítið, setjið þá síðan í skál með köldu vatni sem flýtur aðeins yfir og leyfið þeim að mýkjast. Steikið skallottulaukana og hvítlauksgeirana í smjörinu þar til glærir. Á meðan skal hita upp einn líter af soði og setja kjúklingabitana út í það. Þegar laukarnir eru orðnir glærleitir skal setja hrísgrjónin út í og hita þau aðeins. Setjið hvítu sveppina um leið út í og hrísgrjónin.  Þegar hrísgrjónin hafa hitnað skal setja 1/4 af soðinu út í. Bætið allt smá og smá af soðinu út í þegar hrísgrjónin eru við það að klára að draga í sig frá síðasta skammti. Rétt áður en settur er síðasti skammturinn af soðinu skal hella vökvanum af villisveppunum út í risottóið, saxa sveppina og setja þá út í. Þegar síðasti hlutinn af soðinu er að verða búinn á pönnunni skal bæta út í rjómanum,  parmesan ostinum, villisveppaostinum og kryddinu. Saltið og piprið eftir smekk. Hrærið þar til risottóið er þykkt og kremað, þá er það tilbúið.

Ég bar risottóið fram með fersku salati, ristuðu hvítlauksbrauði og gljáðu graskeri (grasker sem heitir "butternut squash" á ensku).

Gljáð grasker


700 g grasker skorið í ferninga
60 g smjör
50 g púðursykur
1 1/2 tsk salt
1 1/2 tsk pipar

Bræðið smjörið og hrærið við það púðursykur, salt og pipar. Veltið graskersferningunum upp úr því, setjið í ofnfast mót eða skúffu og steikið inni í ofni í 30 mínútur við 180 °C. Hrærið graskerið reglulega upp svo að það steikist jafnt.

Hlakka til að deila hinni uppskriftinni með ykkur á morgun :)

Wednesday, July 2, 2014

Gulrótarkaka sem heillar


Ég hef ávallt verið mikið fyrir gulrótarkökur en þær eru mjög misjafnar. Ég er ef til vill verulega dómhörð á kökur af þessari tegund en það hefur þó skilað sér í því að ég hef fundið mér uppskrift sem ég er afskaplega ánægð með. Það vill líka svo vel til að í hvert skipti sem ég býð upp á hana er alla vega einn til tveir sem að hrósa kökunni og segja að þeir hafi sjaldan smakkað jafn góða gulrótarköku.

Eins og með alla góða hluti í lífinu að þá eru þeir enn betri ef fólk deilir þeim með öðrum og því ákvað ég að deila þessari uppáhalds gulrótarkökuuppskriftinni minni með ykkur.


Gulrótarkaka Hilju

Þessi uppskrift gefur tvo botna. Það er hægt að hafa hana tveggja hæða en ég kýs að hafa hana á einni hæð og þá fæ ég bara tvær kökur. Mér finnst hún betri þannig. 

2 bollar sykur (5 dl)
1/2 bolli matarolía (Isio eða ólífu) - (1,25 dl)
4 stór egg 

Þetta er þeytt mjög vel saman.

2 bollar hveiti (5 dl)
2 tsk matarsódi
2 tsk kanill
1 tsk salt
2 bollar rifnar gulrætur (5 dl)

Þessu blandað saman við blautu efnin.
Hellt í tvö stór tertuform (26 cm)
Bakað við 200°C í 30-40 mín eða þar til pinninn kemur þurr upp úr.

Krem á tvo botna 
Helmingið ef þið ætlið bara að nota einn botn.

250 g rjómaostur
1/3 bolli smjör
1/2 tsk vanilludropar

Þeytt mjög vel saman

2 bollar flórsykur (5 dl)

Allt hrært saman. 


Síðan er bara að skella kreminu á kælda botnana og njóta til hins ýtrasta. Ég fæ bara vatn í munninn við tilhugsunina um þessa dýrindis köku. 

Njótið!