Thursday, June 27, 2013

Ódýr og falleg hirsla til að gera heima

Mig vantar alltaf eitthverja kassa til þess að geyma smáhluti í, t.d. hárdótið eða hárvörurnar ... snyrtidótið jafnvel. En mér finnst fallegar hirslur vera svo dýrar. Ég datt niður á þetta fallega veggfóður á lagersölu sem er staðsett á Kauptúni, rúllan kostaði einungis 1500 krónur. Eftir að hafa keyrt í eftirvæntingu með það heim greip ég kassa utan af dóti sem Kári minn fékk í afmælisgjöf, skar lokið af því og límdi veggfóðrið á hann með ModPodge (fæst í föndurbúðinni í Holtagörðum t.d.). Núna prýðir hann baðherbergishilluna og geymir fyrir mig teygjur og spennur. Er mjög ánægð með hann. 

Endilega farið inn í færsluna til að sjá myndirnar og hvernig ég gerði kassann. 

Thursday, June 20, 2013

Með bros á vör og kamb í hári tek ég nú sumrinu mót


 Er búin að vera að leika mér að gera kamba undanfarið ... hér er t.d. einn af þeim. Síðan er spurningin hvað á maður að gera síðan við alla þessa kamba sem eru farnir að safnast upp í skáp ....

Var fengin til að gera blómaskreytingu úr blómum úr íslenskri náttúru um daginn og er nokkuð ánægð með árangurinn. Kökustandurinn er í minni eigu, hannaður af mér en smíðaður af góðvini mínum Frey Geirdal (og ég er honum óendanlega þakklát!)

 Og í tilefni þess að í dag varð ég árinu eldri ætla ég að skella líka einni mynd með af augasteinunum mínum. Ég elska þá svo heitt og innilega. Þó að veikindi hafi hamlað grósku tilfinninga gagnvart þeim yngri að þá sé ég ekki sólina fyrir honum í dag ... eitt ár getur breytt mörgu, vægast sagt.

Vona að þið séuð að njóta sumarsins og gera það sem gerir sumarið eftirminnilegt og einstakt. Fyrir okkar leiti að þá erum við búin að krossa við fjögur atriði á sumarlistanum okkar ... og eftir helgina getum við krossað við enn fleiri atriði .... það er svo gaman að merkja við!!!!


Kveð ykkur í bili, Hilja

Thursday, June 13, 2013

Einmanalegu servíetturnar

Hver kannast ekki við að eiga heilan helling af servíettum inni í skáp hjá sér, eitt eða tvö stykki af hverri tegund. Ég er búin að horfa þó nokkuð á nokkrar servíettur hjá mér og hugsað með mér hvað ég gæti gert við þær. Ég gæti alveg notað þær í veislu, enginn með eins servíettu, en ég á ekki nóg af servíettum í þess konar aðferð.

Manni mínum til mikillar "ánægju" sanka ég að mér alls kyns dollum, dósum og kössum. Þar á meðal átti ég þrjár dollur utan af camembert osti. Ég tók þar fram ásamt pensli fyrir lím og Mod Podge (fæst t.d. í föndurbúðinni í Holtagörðum ... sem er meðal annars draumaveröldin mín). Tók servíetturnar í sundur en hver servíetta er oft gerð úr tveimur eða þremur lögum að pappír. Ég byrjað á að nota innsta lagið sem er yfirleitt litlaust og notað það sem fyrstu umferð á dolluna, síðan tók ég mið-pappírinn og límdi hann á og að lokum ysta lagið sem er þá með mynstrinu á.

Leyfi þessu að þorna og voilá, þá verður til þessi fallega askja. Vel hægt að nota hana til að geyma eitthvert smádót á heimilinu eða sem gjafaösku. Þannig að núna verður camembert ostur í matinn á hverju kvöldi hjá okkur .... :)

Kv. Hilja

Tuesday, June 11, 2013

Bláu augun þín, blika djúp og skær ...


Ég fékk senda þessa gullfallegu mynd frá Vilborgu Maríu Ástráðsdóttur sem hún tók af yngsta stráknum okkar. Mig langaði að gera eitthvað við hana og svo vel vildi til að ég átti blindramma inni í föndurskáp.

Ég prentaði myndina út í lit, bar Mod Podge á blindrammann, skellti myndinni á hann og slétti vel úr henni. Síðan fann ég mér gamalt dagblað og leitaði sérstaklega eftir bláum blaðsíðum og tók sömuleiðis nokkra textabúta. Ég reif þetta niður og límdi svo á rammann til þess að ramma myndina inn.

Ég er svo ánægð með útkomuna, finnst myndin fá að njóta sín og bláu blaðabútarnir ýta enn undir þennan himinbláa augnlit sonarins.